Landsmenn borða þorramatinn heima - blótin blásin af

10.01.2022 - 09:40
Mynd: RÚV / RÚV
Annað árið í röð stefnir í það að mestöll neysla á þorramat fari fram í heimahúsum því viðbúið er að þorrablót verði almennt blásin af. Framleiðendur þorramats búa sig því undir mikla sölu beint til verslana.

Kórónuveiran sá til þess að flestöllum hefðbundnum þorrablótum var aflýst í fyrra og á rafrænum blótum sem haldin voru í staðinn kom þorramatur lítið við sögu.

Missa stóru þorrablótin

Núverandi samkomutakmarkanir leyfa ekki stórar samkomur og þegar hefur þorrablótum og hlaðborðum á veitingastöðum verið aflýst. „Það þýðir það náttúrulega að þessi þorrablót munu kannski færast meira inn á heimilin,“ segir Andrés Vilhjálmsson, markaðsstjóri Kjarnafæðis Norðenska hf. „Við erum að missa þessi stóru blót sem eru í sveitum landsmanna, íþróttafélögum og slíkt. Þannig að það verður kannski breyting í landslaginu hvað það varðar.“

Býst við að heildarsalan verði svipuð

En þrátt fyrir missi á þessum stóra viðburði má búast við að heildarmagnið frá framleiðendum verði svipað, því fólk vill sinn þorramat eftir sem áður. Sala beint frá verslunum vegur þar upp á móti að sögn Andrésar. „Já, það seldist vel í fyrra og gekk bara mjög vel. Þannig að við búumst við að það muni ganga vel í ár, en eins og ég segi það verður breyting á sölumynstrinu.“

Tilbúnir þorrabakkar til sölu í verslunum

Starfsfólk verslana býr sig undir mikla sölu og það að þorrablótin færist nú meira og minna í heimahús. „Já, við ætlum að vera meira með heila bakka, tilbúna bakka fyrir fólk, tvær stærðir. Þannig að það verður auðveldara fyrir fólk að halda litlar veislur heima,“ segir Hallgrímur Heimir Geirdal Jónasson, umsjónarmaður kjötdeildar Nettó á Glerártorgi. Og eins og fyrr verði súrmatur í fötum og minni pakkningum sem fólk geti kippt með sér heim.

Panta álíka mikið og í fyrra

„Það var mikil sala í fyrra, eigið þið von á að þetta verði svipað núna?“
„Já okkar plön eru öll þannig. Við pöntum inn jafnmikið og bara það sem birgjar geta skaffað okkur,“ segir Hallgrímur.