Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hóstafaraldur herjar á hunda á höfuðborgarsvæðinu

10.01.2022 - 16:57
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Hóstafaraldur geisar nú hjá hundum á höfuðborgarsvæðinu og tugir tilkynninga hafa borist Matvælastofnun síðustu daga um smitaða hunda.

Tugir hafa sagt frá veikindum sem hrjá hunda í Facebook-hópnum hundasamfélagið. Þar hafa birst sögur síðustu daga um að dýralæknir ráðleggi eigendum að einangra veika hunda.

Hótelhósti

Hótelhósti kallast pestin, þekkt öndunarfæraveiki hjá hundum og getur átt sér ýmis útskýringar. Bæði veirur og bakteríur. Hósti er algengasta einkennið, eins og nafnið bendir til, en útferð úr nefi og augum, slappleiki og lystarleysi eru á meðal annara einkenna, segir Þóra Jónasdóttir, dýralæknir gæludýra hjá Matvælastofnun.

„Flestir hundar virðast fara í gegnum þessi veikindi án þess að verða mjög veikir og verða betri á viku til tíu dögum. Einstaka hundar geta orðið meira veikir og þá hefur stundum orðið meiri sýking af öðrum bakteríum sem hafa þá notað tækifærið þegar mótefnakerfið var ekki upp á sitt besta,“ segir Þóra.

Geyma hundinn úti í bíl

Hundarnir geti í þeim tilfellum fengið einkenni eins og þeir séu með lungnabólgu eða þá til dæmis hækkaðan hita og öndunarörðugleika. Þóra segir að þá sé ráðlegt að fara til dýralæknis.

„Það er vert að hafa í huga að ef fólk þarf að leita til dýralæknis með þessa hunda er mjög mikilvægt að hringja á undan sér, panta tíma og geyma hundinn í bílnum áður en maður tilkynnir sig í móttöku. Maður vill alls ekki taka hundinn inn og kannski smita þar fullt af öðrum hundum. Þetta virðist vera bráðsmitandi og getur borist með loftögnum eins og við hósta eða hnerra,“ segir Þóra.

Óvenjumörg tilfelli

Alla jafna skjóta hóstapestir upp kollinum hjá hundum á þessum árstíma. Faraldurinn sem nú geisar er hins vegar óvenju umfangsmikill. 

„Þetta virðist vera óvenjulega mikið. Núna frá áramótum höfum við fengið tilkynningar frá nokkrum dýralæknum um á milli 60 og 80 tilfelli á þessum nokkru dögum. Það verður að teljast óvenju mikið,“ segir Þóra.

Hundaeigendum á höfuðborgarsvæðinu er ráðlagt að forðast algengustu viðrunarsvæði hunda vegna faraldursins. 

Rannsaka faraldurinn með HÍ

„Við höfum sett af stað, í samstarfi við tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, rannsóknarverkefni til þess að reyna að finna út úr því hvað gæti verið að valda þessum smitandi öndunarfæraeinkennum.  Nokkrir dýralæknar hafa sent inn sýni til að kanna hvort það gæti verið covid 19-veiran en það er allt neikvætt sem hefur komið," segir Þóra. Hundar séu ekki taldir sérstaklega móttækilegir fyrir kórónuveirunni.

Stroksýni eru tekin úr hálsi og nefi hunda fyrir rannsóknarverkefnið og sýnin send til sýklaræktunar. Þá eru tekin blóðsýni sömuleiðis og rannsakendur reyna að komast að því hvort um sé að ræða þekktar bakteríur eða veirur.

Hundar almennt bólusettir

„Rétt að nefna að hundar á Íslandi eru almennt bólusettir og þetta virðist bæði vera bólusettir og óbólusettir hundar sem fá þessi einkenni. Bóluefnið í grunnbólusetningu fyrir hunda er með algengustu mótefnavakana gegn hótelhósta en það geta aðrar veirur eða bakteríur verið að valda þessari veiki sem nú gengur,“ segir Þóra.

Þá minnist Þóra á hnerrapest sem gekk eins og eldur í sinu hjá bæði hundum og köttum hér á landi árið 2017. Fjöldi sýna var tekinn á þeim tíma og leitað að bæði veirum og bakteríum en ástæðan fannst aldrei. Nú standi til að leita enn betur.

Þórgnýr Einar Albertsson