Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erfitt að lesa í lagalega þýðingu tjákna

10.01.2022 - 16:11
Mynd: Skjáskot / RÚV
Engin lagaákvæði eru til um stöðu læksins og erfitt að lesa lagalega í þýðingu tjákna á samfélagsmiðlum að sögn Þóru Hallgrímsdóttur, kennara við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hún segir þetta þó tengjast stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til tjáningar.

Lækið á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum og túlkun á því hefur vakið mikla umræðu undanfarna daga. Umræðan varð hávær eftir uppljóstrun Vítalíu Lazarevu um tvö atvik þar sem valdamiklir menn í viðskiptalífinu annars vegar og þekktur fjölmiðlamaður hins vegar brutu gegn henni. Fjölmiðlamaðurinn, Logi Bergmann Eiðsson, setti inn færslu á Facebook á fimmtudagskvöld, þar sem hann sagðist kannast við annan hluta frásagnar Vítalíu, en ekki hinn þar sem hún segir hann hafa brotið gegn sér. Fjöldi fólks setti tjákn við færslu Loga, svo sem þumal upp, eða læk, hjarta eða önnur tjákn. Meðal þeirra sem settu læk við færsluna var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Umdeilt læk

Fjöldi fólks fann að þessari notkun ráðherrans á tjákninu. Meðal þeirra var þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson, sem fannst áhugavert að Logi Bergmann hafi jafnframt lokað fyrir athugasemdir um leið og fólk hafi spurt hvað læk ráðherrans þýddi. Sjálf sagðist hún í samtali við mbl.is hafa viljað sýna samkennd með Loga Bergmann. Íslandsdeild alþjóðasamtakanna Transparency International, samtaka gegn spillingu, sagði að það að áhrifafólk í samfélaginu setji þumal eða læk við færslur þar sem gerendur neiti sök, geti fallið undir gerendameðvirkni.

Áslaug Arna tók þátt í herferð gegn kynferðisofbeldi sem farin var undir myllumerkinu #égtrúi, það er að fólk trúi frásögn þolenda. Þá gagnrýndi hún vararíkissaksóknara í haust fyrir að setja læk við færslu Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns á Facebook þar sem hann birti brot úr lögregluskýrslu í máli Þórhildar Gyðu Arnardóttur, þolanda í ofbeldismáli. Hafði Vísir þá eftir Áslaugu að sé þætti mjög vafasamt af vararíkissaksóknara að tjá sig með þeim hætti sem hann hafi gert á samfélagsmiðlum nýlega.

Engin lagaákvæði til

Þóra sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að engin lagaákvæði séu til sem skilgreina stöðu læksins. „Ég veit til dæmis ekki til þess að það hafi fallið einhver dómur um það eða það geti falist einhver meiðyrði í því að setja einhvers konar tjákn við færslu sem sett er fram á samfélagsmiðlum,“ sagði hún. Allir hafi stjórnarskrárbundinn rétt til tjáningarfrelsis og mikilvægt að þemi réttindum sé haldið í heiðri í þágu lýðræðisins. Persónuleg tjáning þeirra sem eru í einhvers konar valdastöðu geti hins vegar verið aðeins flóknari. „Vegna þess að persónuleg tjáning okkar allra getur haft einhverja þýðingu fyrir okkur sem tjáum hana, en við getum auðvitað ekki stjórnað því hvað þeim sem sjá tjáninguna finnst um þessa tjáningu, eða hvernig hún er túlkuð.“ 

Verður að líta á valdastöðu

Þóra sagði að þeir sem eru í valdastöðu hafi kannski einhvers konar skyldur gagnvart samfélaginu, „að brjóta ekki á réttindum annarra eða líta ekki á það með léttúð hvað þeir setja persónulega fram.“ Þá segir hún að það verði að skilja viðbrögðin sem komið hafa frá þeim sem hafa staðið í Metoo baráttunni „þegar einhverjir sem eru málsmetandi sýna það í einhvers konar verki, með læk hnappinum eða hjartanu, að þau styðji frásögn annars aðilans.“ Þeir sem setji einhvers konar tjákn við svona færslur verði að átta sig á því að þeir hafi enga stjórn á því hvernig fólk túlkar það.