„Áskorunin var klárlega í því að Sveppi missti höndina“

Mynd: Vesturport / Verbúðin

„Áskorunin var klárlega í því að Sveppi missti höndina“

10.01.2022 - 08:50

Höfundar

„Blóðið spýtist bara úr þér eins og úr garðslöngu, það er ekkert að slettast eða frussast um allt eins og í þáttunum,“ segir Davíð Jón Ögmundsson sem vann við brellur í þáttunum Verðbúðin sem sýndir eru á RÚV. Þar blöstu við margar stórar áskoranir, eins og til dæmis að láta útlimi hverfa.

Athugið að þessi færsla inniheldur spilliefni úr þriðja þætti Verbúðarinnar svo það er hyggilegast að horfa áður en lesið er.

Þriðji þáttur Verbúðarinnar, Kalt stríð, var á dagskrá í gær og nú hefur heldur betur dregið til tíðinda. Harpa og Grímur, ásamt Einari og Freydísi, þurfa að aðlaga kvótakerfið að sínum eigin þörfum. Þrátt fyrir opinbera stefnu út á við heldur Jón tryggð við útgerðina og vinnur ásamt Hörpu í því að stýra forsætisráðherra í rétta átt, þótt athygli hans beinist helst að komu Reagan og Gorbachev til Íslands árið 1986. Heima fyrir er baráttan um fiskinn að ná nýjum hæðum og spurt er hvers vegna smærri bátar fái varla að fara út á veiðar á meðan togarinn fær allan kvótann.

Á meðan á öllu þessu stendur reynir Harpa að fá forræði yfir Sæunni og þau Grímur fara á fund með Tinnu og núverandi kærasta hennar til að ná sátt í málinu sem endar ekki betur en svo að Tinna heldur til Reykjavíkur til að byrja nýtt líf. En þetta er bara byrjunin og ýmsar æsispennandi vendingar verða í sögunni í þessum þriðja þætti Verbúðarinnar, nýrrar þáttaraðar sem hefur átt vinsældum að fagna. Hlaðvarpsþátturinn Með Verbúðina á heilanum fór að venju í saumana á þættinum og ræddi Atli Már að þessu sinni við Hilmar Snorrason, skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna, og Davíð Jón Ögmundsson sem vinnur í brellum í þáttunum.

Vildi ekki láta útlim af hendi fyrir tökurnar

Ferill Davíðs hófst þannig að hann byrjaði árið 2003 að vinna hjá RÚV en flutti svo til Kanada til að læra frekari brellugerð. Hann fór aftur að vinna hjá RÚV við grafík árið 2012 en fékk svo vinnu við brellur í Latabæ þar sem hann starfaði í eitt og hálft ár. „Svo rúllar boltinn, ég fer með eigið batterí í gang,“ segir Davíð. „Ég sinni Víti í Vestmannaeyjum og Stellu Blómkvist. Flyt til Danmerkur og vinn í stærri verkefnum en kem svo aftur heim og fer í Kötlu. Að því loknu sitjum við hér.“

Helstu áskorunina í brelluvinnu Verbúðarinnar segir hann vera útlimamissi sem átti sér stað í fyrsta þætti þegar Sverrir Þór Sverrisson, í hlutverki Péturs, missir höndina. Önnur áskorun var svo að plata áhorfandann að höndina vantaði á hann síðar í sögunni. „Áskorunin var klárlega í því að Sveppi missti höndina. Maðurinn vildi ekki láta hana af hendi svo þetta var tvíþætt, annars vegar þurfti hann að missa hana og svo átti hún ekki að vera á honum í þætti númer tvö.“

Blóðið frussast ekki um allt í alvöru eins og á skjánum

Davíð segir að strax hafi farið mikil hugmyndavinna í gang um hvernig það ætti að líta út þegar höndin fór af. Ákveðið var að hann ráðfærði sig við sérfræðing. „Eftir samtal við lækni kom í ljós að það er rosalega óáhugavert þegar fólk missir höndina svona,“ segir Davíð. „Blóðið spýtist bara úr þér eins og úr garðslöngu, það er ekkert að slettast eða frussast um allt eins og í þáttunum.“

Meira fruss og minna fruss

En þau ákváðu að fara þá leið sem liti meira spennandi út á skjánum. „Við erum að velja hvað lúkkar áhugavert og er nógu sjokkerandi fyrir áhorfandann,“ útskýrir Davíð. Og þegar Sveppi birtist á skjánum og það vantar bróðurpart af annarri höndinni var hann með gervistubb, en ýmislegt þurfti samt að laga með brellum svo hann liti raunverulega út. „Gervistubburinn lúkkaði eins og höndin hefði verið skorin af með heimsins beittasta sushi-hníf,“ segir Davíð kíminn. „Það þurfti aðeins að bæta við tægjurnar á þessu líka og svo var þetta fram og til baka, aðeins meira fruss og aðeins minna fruss.“

Í þætti tvö fer hann eftirminnilega í sturtu og fær raflost og þá þurfti að vera ljóst að höndina vantaði að mestu, því Sveppi var nakinn. „Það var tæknileg áskorun að hreinsa þetta út og láta þetta lúkka eins og þetta hefði alltaf verið svona,“ segir Davíð.

Mynd með færslu
 Mynd: Davíð Jón Ögmundsson - Aðsend
Meira eða minna fruss er spurning sem Davíð og brelluteymið stóðu frammi fyrir þegar Sveppi missti höndina í öðrum þætti.

Pinninn sést aldrei fara í andlitið á Einari

Í þriðja þætti er annað atriði sem var nokkur áskorun fyrir brellumeistarana. Það er þegar Einar fær pinna í gegnum hönd sína og í andlitið. „Í pinnanum þurftum við bara að hreinsa út smá teip sem hélt þessum pinna, restin átti sér stað í klippinu. Ef þú spáir í því sérðu aldrei pinnann fara í andlitið á honum,“ segir Davíð.

Allir geta verið mjög stoltir af þáttunum

Í senunni sem tekin var upp í Hull reyndi líka á brelluteymið. Þegar sýnt var frá götunni voru þar fyrir ljósaskilti sem pössuðu ekki inn í þann tíma sem senan átti að gerast, um 1984-5. „Þá þurfti að hreinsa það og það er mikið þannig sem á sér stað í svona seríu,“ segir Davíð.

Davíð er ánægður útkomuna á skjánum eftir mikla vinnu í brelludeildinni. „Ég geng sáttur frá borði. Þetta gekk rosalega vel og allir sem unnu að þessu geta verið mjög stoltir.“

Hægt er að hlýða á Með Verbúðina á heilanum í spilara RÚV.

Allir þættir Verbúðarinnar eru aðgengilegir hér.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Það lék allt á reiðiskjálfi“

Sjónvarp

Berrössuð á súru balli á Siglufirði

Sjónvarp

Búningarnir fengnir úr fataskáp ráðherra