Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Áhætta að vera með menn í vinnu sem kunna ekki á vald

10.01.2022 - 17:59
Mynd: Aðsend mynd / ASÍ
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að hegðun stjórnenda í einkalífi geti litað ákvarðanir þeirra í stjórnun fyrirtækja. Viðbrögð fyrirtækja með fimm áhrifamikla menn, sem sakaðir eru um kynferðisbrot í starfi hafi verið svifasein.

Ara Edwald var í gær sagt upp starfi framkvæmdastjóra Íseyjar útflutnings ehf. sem er dótturfélag samvinnufélagsins Auðhumlu. Fjórir aðrir áberandi menn í viðskiptalífinu, sem sakaðir hafa verið um kynferðisbrot, hafa einnig stigið vikið úr eða hætt störfum sínum undanfarna daga vegna ásakana um kynferðisbrot. 

Reyndu að þegja málið í hel

Í KJarnanum var greint frá því um helgina að miðillinn hefði heimildir fyrir því að þrír mannanna hefðu í lok nýliðins árs fengið þau ráð frá almannatengli að segja að ásakanirnar væru kjaftasaga og best væri að þegja þær af sér. Það gekk ekki eftir því að í síðustu viku sögðu þeir sig frá stjórnarmennsku og öðrum störfum sínum, hver á fætur öðrum. 

Stundin greindi svo frá því í dag að Kaupfélag Skagfirðinga hefði ákveðið að hætta framleiðslu og sölu á jurtapróteindrykknum Teyg og slíta öllu samstarfi við Arnar Grant sem þróaði drykkinn í samstarfi við Ívar Guðmundsson. Haft er eftir Magnúsi Frey Jónssyni, framkvæmdastjóra mjólkursamlags KS að algjör forsendubrestur væri í samstarfi KS og Arnars og vörurnar yrðu teknar úr hillum verslana á næstu dögum. 

Stjórn Íseyjar útflutnings sendi í gærkvöld tilkynningu um uppsögn Ara til félagsmanna Auðhumlu, sem er samvinnufélag í eigu bænda. Stjórnin hafði haft vitneskju um málið frá því í október. Upplýsingar um það eru sagðar hafa verið ónákvæmar en það hafi strax verið tekið alvarlega og stjórnin hafi margoft fundað um það, með Ara og án hans. Hvernig finnst Drífu Snædal forseta ASÍ að stjórnir fyrirtækjanna hafi brugðist við málinu?

„Þær voru svolítið seinar til. Nú veit ég ekki hvaða upplýsingar stjórnirnar höfðu fyrirfram, áður en þetta springur allt út, en mér hefur fundist þær hafa getað verið aðeins fyrri til að bregðast við. Það sem er áhugavert að gerast í þessu núna og virðist vera að renna upp fyrir mörgum stjórnum og fyrirtækjaeigendum er hvað það er mikil áhætta að vera með menn sem kunna ekki að umgangast vald sitt, og beita valdníðslu jafnvel og áreitni og öðrum brotum, hvað það er mikil áhætta að vera með þá í vinnu. Ekki bara út af orðspori heldur er þessi umræða komin upp núna um að ef fólk kemur svona fram við konur, ef karlar koma svona fram við konur, hvaða launaákvarðanir eru þeir að taka varðandi karla og konur í fyrirtækinu? Hvaða aðrar fjárfestingarákvarðanir ef þeir sýna þennan dómgreindarbrest í einkalífinu? Er hægt að treysta dómgreind þeirra í öðrum ákvörðunum? Þetta er gríðarlega merkileg umræða og virðist hafa litað að einhverju leyti viðbrögð stjórna og atvinnurekenda,“ segir Drífa.

Þannig að það skiptir ekki endilega máli hvort menn hafi gerst brotlegir við lög heldur hvernig þeirra hegðun er og dómgreind?

Já, og það sem hefur þótt ákjósanlegur kostur hjá stjórnendum áður fyrr, að sýna ákveðni, festu og jafnvel yfirgang og einhverja valdníðslu, þykir ekki endilega kostur í dag. Þetta er að verða áþreifanleg samfélagsbreyting. Þessi sterki karlmaður sem telur sig eiga tilkall til alls heimsins og allra, hann er kannski ekki ákjósanlegasti forstjóri fyrirtækis lengur. Það er mjög mikil breyting.“

Ný kynslóð þorir að standa uppi í hárinu á mönnum

Drífa segir að konur sem stigið hafa fram undanfarið hafi sýnt mikið hugrekki. Í pistli sínum um helgina nefndi Drífa augljóst kynslóðabil hvað það varðar að krefjast þess að valdamiklir menn beri ábyrgð á hegðun sinni. Nú þurfi konur ekki að vera hin fullkomnu fórnarlömb til að tjá sig um mál sem þessi.

„Þetta er alveg nýr tónn. Ég man þegar ég var að taka sem mest þátt í þessari umræðu fyrir 15-20 árum síðan. Þá var það segin saga að um leið og maður fór út á ritvöllinn og gerði athugasemd við orðalag eða eitthvað slíkt þá var það veruleiki okkar sem vorum í þessari umræðu að fá nokkrar nauðgunarhótanir í kjölfarið. Það var í alvöru eitthvað sem maður bjóst við og reiknaði með enda var það segin saga að mjög margar brunnu út í þessari umræðu. Það er mjög erfitt að standa í henni, mætandi svona viðbrögðum,“ segir Drífa.

Hún segist til að mynda eiga skjáskot af athugasemdum sem hún fékk við færslu sem hún skrifaði um bloggfærslu Egils Einarssonar sem í dag myndu teljast til sakamála í dag en var ekki talið sem slíkt á þeim tíma.

Rætt var við Drífu í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.