Mynd: epa

Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.
Yfir 300.000 hafa dáið úr COVID-19 í Mexíkó
09.01.2022 - 07:29
Yfir 300.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í Mexíkó, samkvæmt staðfestum tölum þarlendra heilbrigðisyfirvalda. Talið er fullvíst að mun fleiri hafi orðið farsóttinni að bráð í landinu. Skimun er þar afar gloppótt, og það gildir líka um krufningar og aðrar rannsóknir er varða möguleg banamein þeirra sem deyja. Mat sérfræðihóps sem endurskoðaði útgefin dánarvottorð síðustu missera að beiðni heilbrigðisyfirvalda er að líklegra sé að COVID-19 hafi lagt um 460.000 Mexíkóa í gröfina.
Aðeins í fjórum löndum hafa fleiri dauðsföll af völdum COVID-19 verið staðfest. Það eru Bandaríkin, þar sem ríflega 837.000 manns hafa dáið úr sjúkdómnum, Brasilía, með nær 620.000 andlát, Indland, þar sem staðfest dauðsföll vegna COVID-19 nálgast 484.000, og Rússland, þar sem 309.000 dauðsföll hafa verið rakin til farsóttarinnar með óyggjandi hætti.