Mikið annríki í sjúkraflugi á síðasta ári

09.01.2022 - 19:31
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Átta hundruð og sjö sinnum var farið í sjúkraflug á síðasta ári og flogið með tæplega níu hundruð sjúklinga. Aðeins einu sinni áður hafa sjúkraflugin verið fleiri hér á landi.

Um leið og flugvél Mýflugs kemur úr sjúkraflugi er hún strax gerð klár fyrir útkall í næsta flug. Þegar hafa nokkur sjúkraflug verið farin þá daga sem liðnir eru af árinu 2022 og það var mikið annríki árið á undan.

Mikill munur milli 2020 og 2021

„2021 voru átta hundruð og sjö flug á móti sex hundruð og nítján 2020,“ segir Leifur Hallgrímsson, flugrekstrarstjóri Mýflugs. Ástæðan fyrir þessum mikla mun sé fyrst og fremst hversu mikið hægðist á öllu þjóðfélaginu vegna covid árið 2020.

Sjúkraflugin einu sinni áður verið fleiri

En síðasta ár er með þeim stærstu í sjúkraflugi og í þessum 807 ferðum var flogið með tæplega 900 sjúklinga. „Árið 2018 fórum við 808 flug, einu flugi meira. Þannig að þetta er með því almesta sem við höfum farið,“ segir Leifur. Ef síðustu fimm ár eru skoðuð sést vel hve 2020 sker sig úr hvað fjölda sjúkrafluga varðar. Þannig voru farin 800 sjúkraflug árið 2017 og 764 flug árið 2019. Nýliðið ár er mun nær því sem venjulega er flogið.

Mikið samstarf við Landhelgisgæsluna

Miðstöð sjúkraflugsins er á Akureyri og þaðan gerir Mýflug út tvær sjúkravélar. Talsvert samstarf er við aðra flugrekendur og Leifur segir mikið samstarf við Landhelgisgæsluna. „Það kemur alloft fyrir, eða nokkrum sinnum á ári, að Gæslan fer út á sjó og sækir veikan eða slasaðan einstakling sem við tökum svo á Norðfirði, Egilsstöðum, Þórshöfn, Ísafirði, Hornafirði jafnvel, og flytjum til Reykjavíkur á spítala. Þannig að samstarf okkar við Gæsluna er mjög gott.“

„Akureyri er að mínu mati mjög góð staðsetning“

Oft hefur verið deilt á að hafa þessa útgerð á Akureyri og talið nær að miðstöð sjúkraflugsins sé í Reykjavík. Leifur segir þetta hafa verið skoðað margoft og niðurstaðan sé alltaf sú sama. „Þannig að Akureyri er að mínu mati mjög góð staðsetning fyrir sjúkraflug á Íslandi.“