Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mál Vítalíu með þeim mikilvægustu síðustu áratugi

09.01.2022 - 19:48
Prófessor í félagsfræði segir að framvindan í máli Vítalíu Lazarevu sé eitt það mikilvægasta sem gerst hefur varðandi stöðu karla og kvenna á Íslandi síðustu áratugi. #metoo-hreyfingin hafi ýtt undir samfélagsbreytingar.

„Framhald af því sem þarna var að gerast, það að allir gerendur eða þeir sem bent var á þarna, þurfi að víkja, það er mjög merkilegt. Þarna eru það ekki hverjir sem er sem eru ásakaðir,“ segir Ingólfur V. Gíslason, prófessor í félagsfræði. 

Hann segir að erfitt sé að gera sér í hugarlund afleiðingarnar til lengri tíma fyrir mennina. Þeir eru áhrifamenn í íslensku viðskiptalífi og hafa farið eða verið sendir í leyfi vegna ásakana um kynferðisbrot.

Snýst um viðurkenningu en ekki hefnd

„Það er kannski ekki aðalatriðið. Mér hefur ekki fundist sem hefndarhugsun sé rík hjá þeim sem koma fram og vilja segja frá. Heldur að fá viðurkenningu og afsökun og svo framvegis. En ég held að hefndin sé ekki ofarlega þarna í huga,“ segir Ingólfur. Hann telur skilaboðin um hvað má og hvað má ekki síast út í samfélagið. „Og undir hvaða kringumstæðum valdaójafnvægi er það mikið að menn eiga að bakka út úr aðstöðunni og það var náttúrlega í þessu tilfelli.“ Hann beri von í brjósti um að málið hafi áhrif á komandi kynslóðir.

Alvarlegasti vandinn er ofbeldi af hendi karla

„Og það var svo sannarlega komin tími til, vegna þess að alvarlegasta vandamálið í samskiptum og stöðu karla og kvenna á Íslandi er það ofbeldi sem konur hafa þurft að sæta af hálfu karla,“ segir Ingólfur. 

„Það er í raun og veru ekki fyrr en við erum búin að stöðva það og gera samfélagið jafn tryggt fyrir konur og karla sem við getum í raun og veru vænst þess að það verði jafnrétti á Íslandi.“ Mál Vítalíu sé mjög mikilvægt skref á þeirri leið.

„Alveg klárlega. Ég held að þetta sé eitt það mikilvægasta sem gerst hefur varðandi stöðu karla og kvenna síðustu áratugi á Íslandi.“ Þetta eina mál? „Þetta eina mál,já,“ segir Ingólfur.