Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Handtekin við þrif á heimili forsætisráðherra

09.01.2022 - 09:54
epa09634541 Sweden's Prime Minister Magdalena Andersson looks on as she is welcomed by European Commission President Ursula van der Leyen (not pictured) at the European Commission in Brussels, Belgium, 10 December 2021.  EPA-EFE/JOHANNA GERON / POOL
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar Mynd: EPA
Kona, sem ekki hafði landvistarleyfi í Svíþjóð, var handtekin við þrif á heimili Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar skömmu fyrir jól. Dagblaðið Expressen greinir frá þessu.

Konan starfaði hjá þriffyrirtæki sem forsætisráðherrann var í viðskiptum við.

Expressen greinir frá því að skömmu fyrir jól hafi starfsmenn fyrirtækisins verið við þrif á heimili ráðherrans í Nacka, úthverfi Stokkhólms. Fyrir mistök fór öryggiskerfi heimilisins af stað en það er beintengt lögreglu og voru lögregluþjónar því fljótir á vettvang. Kom þá í ljós að ein kvennanna sem vann við þrif var ekki með landvistarleyfi og hafði verið eftirlýst vegna þess.

Uppákoman hefur vakið spurningar um hversu vel er haldið á öryggismálum ráðherra. Þingmenn segja ótækt að fólk geti haft aðgang að heimili forsætisráðherra án þess að fram fari bakgrunnsskoðun.

Blaðamaðurinn Per Gudmundson nefnir í því samhengi að tvisvar hafi sænskir ráðherrar verið myrtir: Olof Palme árið 1986 og Anna Lindh árið 2003.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV