Kona, sem ekki hafði landvistarleyfi í Svíþjóð, var handtekin við þrif á heimili Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar skömmu fyrir jól. Dagblaðið Expressen greinir frá þessu.
Konan starfaði hjá þriffyrirtæki sem forsætisráðherrann var í viðskiptum við.
Expressen greinir frá því að skömmu fyrir jól hafi starfsmenn fyrirtækisins verið við þrif á heimili ráðherrans í Nacka, úthverfi Stokkhólms. Fyrir mistök fór öryggiskerfi heimilisins af stað en það er beintengt lögreglu og voru lögregluþjónar því fljótir á vettvang. Kom þá í ljós að ein kvennanna sem vann við þrif var ekki með landvistarleyfi og hafði verið eftirlýst vegna þess.
Uppákoman hefur vakið spurningar um hversu vel er haldið á öryggismálum ráðherra. Þingmenn segja ótækt að fólk geti haft aðgang að heimili forsætisráðherra án þess að fram fari bakgrunnsskoðun.
Blaðamaðurinn Per Gudmundson nefnir í því samhengi að tvisvar hafi sænskir ráðherrar verið myrtir: Olof Palme árið 1986 og Anna Lindh árið 2003.