Hafa hugsað um leiði ókunnugs manns í 86 ár

Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / RÚV

Hafa hugsað um leiði ókunnugs manns í 86 ár

09.01.2022 - 14:00

Höfundar

Frá árinu 1935 hefur fjölskylda á Akureyri hugsað um leiði Norðmannsins Trygve Evangar án þess að vita á honum nein deili. Allt byrjaði þetta vegna þess að unga konu dreymdi draum.

„Mömmu dreymir þennan mann. Hann vitjar hennar í draumi og gerir henni ljóst að hann sé óánægæður með að legsteinninn hans sé á vitlausri gröf,“ segir Ásta Eggersdóttir í þættinum Sögur af landi á Rás 1.

Móðir hennar hafði samband við umsjónarmann kirkjugarðsins og fékk þessu breytt. Hún var þarna ung kona og hafði nýlega misst frumburð sinn, sex vikna gamla stúlku, sem lést vöggudauða. Litla stúlkan var jörðuð hjá ömmu sinni, nokkrum metrum frá leiði Norðmannsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir - RÚV
Ásta Eggersdóttir og eiginmaður hennar Hannes Óskarsson við leiði Trygve Evanger í kirkjugarðinum á Akureyri.

„Hann er bara einn af okkur“

„Mamma trúði mikið á drauma og tók mark á þeim og þarna var greinilega draumur sem virkaði vegna þess að hann lét aldrei vita af sér eftir þetta,“ segir Ásta. Allar götur síðan hugsaði móðir Ástu um þetta leiði á sama hátt og hún hugsaði um leiði ástvina sinna. Og þegar hún hætti að hafa heilsu til að fara í garðinn, tók Ásta við. „Hann fær alltaf jólaskreytingu og hann fær alltaf sumarblóm. Hann er einn af okkur, það er bara þannig,“ segir Ásta. 

En hver var Trygve?

Á legsteininum stendur aðeins Trygve Evanger, Eggesbønes Norge og síðan fæðingarár og dánarár. Trygve var 26 ára þegar hann lést og þangað til nú í haust vissi fjölskylda Ástu ekkert um hann.

Þá fór tengdasonur Ástu, sem er norskur, að garfa í málinu og í kjölfarið var fjallað um það í Morgunblaðinu. Þá fór boltinn að rúlla. Fjöldi fólks setti sig í samband við Ástu og fjölskyldu. Og núna, rúmum 86 árum eftir að hann var jarðaður, vita þau loksins hver hann var. 

Nú veit Ásta að Tryggve var sonur hjónanna Gustavs og Kristine Evanger, frá Eggesbønes í Noregi. Þar ólst hann upp, átti þrjú systkini og leið engan skort. Gustav faðir hans var framsækinn viðskipta- og útgerðarmaður og síldin rak hann og Olav bróður hans til Íslands snemma á 20. öldinni.

Þeir bræður voru stórhuga og reistu stærðarinnar síldarverksmiðju við austanverðan Siglufjörð, Evangerversksmiðjuna, sem eyðilagðist í snjóflóði árið 1919. Síðar reystu þeir síldarverksmiðjur bæði á Dagverðareyri við Eyjafjörð og á Raufarhöfn.

Á Raufarhöfn er Trygve einmitt fyrst getið í kirkjubókum árið 1931. Árið 1934 er hann sagður lýsisbræðslumaður á Raufarhöfn. Heimskreppan lék viðskiptaveldi Evangerfjölskyldunnar grátt og hún missti mikið af eignum sínum í Noregi og á Íslandi. Síldarverksmiðjan á Raufarhöfn varð gjaldþrota og foreldrar Trygve fóru af landi brott árið 1932. Þá hefur Trygve líklega verið orðinn veikur af berklum því hann deyr á Kristneshæli í nóvember 1935.

Gott að vita loksins eitthvað

Ásta segir að það hafi verið ómetanlegt að fá loksins einhverjar upplýsingar um Trygve. „Já, að vita loksins eitthvað áður en maður fer sjálfur þarna niður,“ segir hún og hlær. „En það er dálítið sorglegt að vita til þess að enginn hafi spurst fyrir um hann eða leiðið hans í öll þessi ár.“

Ásta segir að aldrei hafi komið til greina að hætta að hugsa um leiði þessa bláókunnuga manns. „Það er ekki í boði. Hann tilheyrir okkur. Og núna vitum við hvenær hann átti afmæli og hver veit nema við bætum því við og förum alla vega með kerti."

Hér má hlýða á þáttinn Sögur af landi á Rás 1 í heild sinni.