Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Fráleitt að hætta skimunum eins og staðan er núna“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala, segir það ekki leysa vandann að sleppa faraldrinum lausum og hætta skimunum. Hann segist sammála því að þurfi að efla spítalann og getu hans til þess að takast á við faraldurinn, en telur það einmitt felast í því að halda skimunum áfram.

Læknir á Landspítala, Ragnar Freyr Ingvarsson, veltir því upp í færslu á Facebook síðu sinni í dag hvort tímabært sé að endurhugsa nálgun í heimsfaraldrinum. Þá sérstaklega bendir hann á PCR-sýnatökurnar og spyr hvort því gríðarlega fjármagni sem þeim fylgir, væri betur beint inn á Landspítalann.

Már er á öndverðum meiði og segir víðtækar PCR-skimanir enn mikilvægar, þó það virðist sem minna sé um alvarleg veikindi af omíkron-afbrigði veirunnar. Þá sé það meira heilbrigðiskerfinu í hag að setja fjármagn í skimanir.

„Eins og stendur þá er enþá bara svo mikið af fólki sem er enþá næmt fyrir þessu afbrigði. Jafnvel þó það séu færri einstaklingar heldur en til dæmis miðað við delta-afbrigðið, sem verða alvarlega veikir, þá er samt engu að síður geta heilbrigðiskerfisins eins og það er í dag alveg við ystu mörk“ segir Már.

Þannig þú metur það svo - að þið mynduð ekki ráða við þessa nálgun yrði hún valin?

„Nei alls ekki, að stoppa skimanir er bara fráleitt. Viðfangsefnið hverfur ekkert þó sé hætt að skima. En það yrði þá bara stjórnlaust, ég hef enga trú á því að það væri leiðin fram á við“ segir Már.