Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Yfir 150 þúsund látist með COVID-19 í Bretlandi

epa08854092 A patient with Covid-19 is treated in the intensive care unit at Oslo University Hospital Rikshospitalet in Oslo, Norway, 27 November 2020 (issued 01 December 2020).  EPA-EFE/Jil Yngland  NORWAY OUT
 Mynd: EPA
Yfir 150 þúsund manns hafa látist eftir kórónuveirusmit í Bretlandi. Þá létust 313 einstaklingar með veiruna í landinu í dag, en samkvæmt tölum ríkisstjórnarinnar er þá heildarfjöldi látinna kominn í 150.057 manns. Bretland er sjöunda land heims sem skráir andlát fleiri en 150 þúsund smitaðra.

Fleiri en 150 þúsund hafa látist smitaðir af COVID-19 í Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi, Rússlandi, Mexíkó og Perú. Miðað er við einstaklinga sem látist hafa innan 28 daga.

Hvetur landsmenn til að þiggja örvunarbólusetningu

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, að faraldurinn hafi tekið sinn toll af þjóðinni. Hann hvetur landsmenn til þess að þiggja örvunarbólusetningu og segir það leiðina út úr faraldrinum.

Fjöldi smita hefur hækkað nokkuð í landinu síðustu misseri og það talið stafa af hraðri útbreiðslu omíkron-afbrigðis veirunnar. Í gær greindust yfir 146 þúsund með COVID-19 í Bretlandi og er nýgengi smita með því hæsta sem verið hefur í landinu.

Í síðustu viku létust 1.271 einstaklingur smitaður af covid í Bretlandi, sem eru 38% fleiri en vikuna á undan.

Færri dauðsföll en í fyrri bylgjum

Tala látinna rís þó ekki nándar nærri eins hratt nú í landinu og hún gerði fyrir ári síðan. Í janúar 2021 létust 1.359 á dag með veiruna, þegar mest var. Það er svipaður fjöldi og hefur látist síðastliðna viku.