Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sjö látin og þriggja saknað eftir bjarghrun í Brasilíu

08.01.2022 - 23:53
epa09674491 A handout photo made available by the Minas Gerais State Fire Department that shows the search and rescue work for victims of an accident in Lake Furnas, a tourist spot in the municipality of Capitolio in the state of Minas Gerais, Brazil, 08 January 2022. At least five people died and 20 are missing when a huge rocky wall of a canyon fell earlier on the same day on some tourist boats in a lake in the Brazilian state of Minas Gerais, which has suffered a heavy rainstorm in recent days.  EPA-EFE/Minas Gerais State Fire Department / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Furnas-vatn er rómað fyrir mikla náttúrufegurð og vinsæll áfangastaður ferðafólks Mynd: EPA-EFE - Minas Gerais State Fire Departme
Minnst sjö manns fórust þegar bjarg hrundi úr klettavegg við stöðuvatn í Brasilíu á laugardag og lenti á þremur bátum á siglingu skammt frá klettunum. Þirggja til viðbótar er saknað, að sögn yfirvalda. Edgard Estevo da Silva, slökkviliðsstjóri í Minas Gerais-ríki, greindi frá þessu á fréttamannafundi.

Furnas-vatn er fagurgrænt og vinsæll ferðamannastaður, segir í frétt AFP, og uppistöðulón samnefndrar virkjunar. Það var um hádegisbil að staðartíma að stóreflis bjarg hrundi úr bröttum klettaveggnum sem umlykur vatnið og á þrjá ferðamannabáta sem þar voru í skoðunarferð.

Á myndbandsupptökum má sjá þegar bjargið hrynur á bátana og skelfinguna sem grípur um sig meðal farþega í öðrum bátum. Yfir 30 slösuðust og þurfti að flytja níu þeirra á sjúkrahús, samkvæmt upplýsingum slökkviliðsmanna sem tóku þátt í björgunarstörfum ásamt fleiri viðbragðsaðilum, þar á meðal kafarasveit frá brasilíska flotanum.

Upphaflega var talið að um 20 manns væri saknað, og var það byggt á „upplýsingum frá sjónarvottum, ferðaskrifstofum og aðstandendum“ að sögn slökkviliðsstjórans Estevo da Silva. Síðar kom í ljós að flest þeirra höfðu komist upp úr vatninu af sjálfsdáðum og ýmist farið heim eða leitað sér aðhlynningar á slysasdeild. Leit að þeim þremur sem enn er saknað hófst skömmu eftir að slysið varð en hlé var gert á henni í nótt af öryggisástæðum.

Stórrigningar hafa dunið á suðaustanverðri Brasilíu síðustu daga, sem eykur líkur á skriðuföllum og atburðum sem þessum að sögn slökkviliðsstjórans da Silvas.

Fréttin var uppfærð kl. 07.50, eftir að nýjar upplýsingar bárust um fjölda látinna og horfinna.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV