Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bylting þegar íslenskar bækur skákuðu Alistair MacLean

Mynd: Samsett / Samsett

Bylting þegar íslenskar bækur skákuðu Alistair MacLean

08.01.2022 - 08:00

Höfundar

Halldór Guðmundsson, sem var útgáfustjóri Máls og menningar um langt skeið, segir að á síðasta aldarfjórðungi 20. aldar hafi orðið byltingatímabil sem jafnast á við það þegar jólabókaflóðið varð til á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Rætt er við Halldór í þættinum Á verkstæði bókmenntanna, sem hóf göngu sína á Rás 1 í dag. Í tíu þáttum verður talað um bókmenntalífið á Íslandi á níunda og tíunda áratugnum út frá sjónarhóli hans sem útgáfustjóra Máls og menningar. Þar rifjar hann upp kynni sín af höfundum, bókum sem hann gaf út og bókmenntaumræðuna á þessum árum. Halldór á bréf og aðrar heimildir frá þessum tíma, sem hann geymir í kössum í bílskúr og víðar, og verður leitað í þær í þáttunum. Heyra má Halldór lesa upp úr einu slíku bréfi, frá Gyrði Elíassyni rithöfundi, í spilaranum hér fyrir ofan.

„Mig langar að vera aðeins stærri í tímabilinu,“ segir Halldór þó í fyrsta þætti, „það er að segja að horfa á þetta frá 1975, síðasta fjórðung tuttugustu aldar, því þá verður algjör bylting hér í útgáfunni.“

Þá varð mikil breyting á bæði tengslum höfunda við útgefendur og tengslum höfunda við lesendur. „Það verður bylting sem á sér meðal annars rætur í því að lög um launasjóð rithöfunda voru samþykkt 1975 og svo verður til næstum nýtt samband lesenda og höfunda þegar listaskáldin vondu stíga á svið Háskólabíós 1976. Það gerast hlutir sem menn höfðu ekki upplifað áður.“ Sama ár gaf Jóhann Páll Valdimarsson, þá kornungur, út skáldsögu Péturs Gunnarssonar Punktur, punktur, komma, strik. „Önnur eins íslensk metsölubók hafði ekki sést.“

Á þessum tíma var spennusagnahöfundurinn Alistair MacLean alráður á bóksölulistum á Íslandi. Bækur hans mokuðust út á Þorláksmessu en árið 1979 urðu straumhvörf þegar Undir kalstjörnu eftir Sigurð A. Magnússon kom út „Ég held að það sé fyrsta íslenska bókin sem rauf 10.000 eintaka múrinn. Sama ár er önnur íslensk bók, Hvunndagshetja Auðar Haralds, næst mest selda bókin.“ Þá fór landslagið í íslenskri bókaútgáfu að breytast, segir Halldór, með fleiri íslenskum bókum og atvinnurithöfundum. „Síðan byrja ég hjá Máli og menningu 1984 og get séð af fremsta bekk hvað er að gerast.“

Frá 1975 til 2000 varð stórt umbreytingartímabil í bókaútgáfu á Íslandi, sem hann ber saman við tilurð jólabókaflóðsins á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.  „Í kringum 1975 komu út 500 íslenskir titlar á ári. Árið 2000 voru þeir orðnir um 1300. Þetta er tími þar sem þjóðin syndir í bókum. Þá keyra um menn eins og Bjarni júdókappi með full skott af ritsöfnum og selja á hvern einasta sveitabæ.“

Þröstur Helgason ræðir við Halldór Guðmundsson um íslenskt bókmenntalíf á níunda og tíunda áratugnum í þáttunum Á verkstæði bókmenntanna, sem eru á dagskrá Rásar 1 á laugardögum klukkan 10:15. Sömuleiðis er rætt við fræðimenn, höfunda og aðra þátttakendur í bókmenntalífi þessa forvitnilega skeiðs í íslenskri bókaútgáfu.