Anna Kristine Magnúsdóttir látin

08.01.2022 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcakova, blaðamaður og dagskrárgerðarmaður, er látin 68 ára að aldri. Hún lést á heimili sínu á fimmtudag.

Blaðamennskuferill Önnu hófst árið 1977 og starfaði hún meðal annars á DV, Helgarpóstinum og Pressunni auk þess að ritstýra nokkrum tímaritum.

Hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu árið 1991, var umsjónarmaður Dægurmálaútvarps Rásar 2 árin 1991-96, morgun- og síðdegisútvarps Rásar 2 1994-96 og með eigin útvarpsþátt, Milli mjalta og messu, á Rás 2 1996-99. Síðar starfaði hún á Stöð 2.

Anna Kristine lætur eftir sig uppkomna dóttur, Elísabetu Elínu Úlfsdóttur, en hún greinir frá andlátinu í færslu á Facebook.

Anna Kristine hlaut blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands í flokki rannsóknarblaðamennsku árið 2007 sem hluti af teymi blaðamanna DV fyrir umfjöllun um illan aðbúnað og meðferð barna á vistheimilum á vegum hins opinbera. Umfjöllunin varð til þess að alþingi skipaði rannsóknarnefnd um þessi mál og hafa sanngirnisbætur verið greiddar til um 1.100 manns sem dvöldu á slíkum heimilum í æsku.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV