Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vonar að smitrakning verði ekki að framtíðarstarfi

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Vegna aukinna smita í samfélaginu fyrir jól var ákveðið að fjölga í smitrakningarteyminu. Á aðfangadag var þjónustuver Almannavarna á Akureyri sett upp, það fyrsta utan höfuðborgarinnar

Byrjuðu á aðfangadag

Smitrakning Almannavarna þurfti að auka mannskap þegar smitum fór fjölgandi fyrir jól og var þá leitað til Rauða krossins á Akureyri. Úr varð að Háskólinn á Akureyri bauð fram aðstöðu fyrir starfsemina og Kjartan Ólafsson, lektor við Háskólann á Akureyri, var ráðinn stöðvarstjóri þar. 

„Á aðfangadag var hringt í mig. Við erum búin að vera í þessu síðan. Það var hlaupið heim í mat á aðfangadag og það var byrjað um hádegi á jóladag og við tókum hlé klukkan 6 á gamlársdag og vorum komin aftur af stað á hádegi á nýársdag. Tæknimennirnir hérna hlupu í það að græja tölvur og skjái og á meðan byrjuðum við og Rauði krossinn með einhver borð og tölvur, eitthvað sem við gátum týnt til á núll einni. Fórum að þjálfa upp mannskap og finna fólk til að sinna vinnunni.

Einungis í Reykjavík og á Akureyri

Það eru um þrjátíu manns sem koma að smitrakningu á Akureyri. Starfsstöðvar fyrir rakningu eru nú einungis í Reykjavík og á Akureyri. Kjartan segir að þó þetta sé mikil vinna sé hún þess virði, því hann trúir því að smitrakning sé besta leiðin gegn faraldrinum. 

Hann segir ómögulegt sé að segja hversu lengi þessi tímabundna starfsstöð verði starfrækt í háskólanum en segist vonast til að þetta verði ekki framtíðarstarf.