Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Telur afstöðu forsætisráðherra ekki duga í máli Erlu

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RUV
Lögmaður Erlu Bolladóttur telur það ekki nóg að stjórnvöld ætli ekki að áfrýja dómi héraðsdóms sem féll í vikunni um hlut hennar í Geirfinnsmálinu. Leita ætti sátta í máli Erlu í stað þess að láta hana halda baráttu sinni áfram fyrir dómstólum.

Erla var dæmd fyrir meinsæri í Geirfinnsmálinu ásamt tveimur öðrum árið 1980. Endurupptökunefnd ákvað árið 2017 að mál allra sakborninga í málunum skyldu fara aftur fyrir dómstóla nema mál Erlu. Þeir voru sýknaðir með sögulegum dómi í Hæstarétti árið 2018.  

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í fréttum í gær að ríkið ætli ekki að áfrýja dómi héraðsdóms frá því fyrr í vikunni, sem heimilaði Erlu endurupptöku hæstaréttardómsins. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu, segir ríkið þurfa að gera meira.

„Það er einfalt fyrir forsætsiráðherra að segja að Erla Bolladóttir geti sótt um endurupptöku hjá endurupptökudómstól eins og ekkert sé - það er meiriháttarmál. Nú hefur Erla staðið í þessu í 46-7 ár og það er ekki hægt að ætlast til þess að hún hafi þrek til þess að halda þessu áfram í mörg ár í viðbót,“ sagði Ragnar á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun.

Hann segir að til þess að ljúka málinu á hinn fullkomna hátt  væri best að það færi aftur fyrir Hæstarétt eftir endurupptöku og þar verði Erla sýknuð. 

„En er hægt að leggja það á manneskju sem hefur þurft að þola þetta svona lengi að halda enn áfram. Því það eru til aðrar leiðir. Forsætisráðherra fer með framkvæmdavald í landinu og það var framkvæmdavaldið sem hratt þessu máli af stað á sínum tíma 1975-6. Þannig hlutur framkvæmdavaldsins er afar stór og misferli þess mjög mikið. Það væri ástæða til þess, þess vegna, að setjast niður og reyna að ljúka málinu,“ segir Ragnar Aðalsteinsson.