Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hundrað þúsund flugu með Play

07.01.2022 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Rétt rúmlega hundrað þúsund farðegar flugu með flugfélaginu Play á fyrsta hálfa ári félagsins í rekstri. Þetta segir í tilkynningu frá Play en alls voru farþegarnir 101.053 talsins og flugferðirnar rúmlega þúsund.

Sætanýtingin var 53,2 prósent sem er sagður góður árangur í ljósi kórónuveirufaraldursins og í samanburði við önnur ný flugfélög í Evrópu og Norður-Ameríku.

„48 prósent farþega í fyrra voru farþegar á leið frá Íslandi sem endurspeglar frábærar viðtökur félagsins á íslenska markaðnum og sýnir svo ekki verður um villst þörfina fyrir lággjaldaflugfélag á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Alls flutti Play 17.749 farþega í desember og var sætanýtingin þá 53,2 prósent. Örlítið lægri en í nóvember þegar hún var 58,3 prósent. 

Covid-erfiðleikar

Aukinn fjöldi kórónuveirusmita, nýjar takmarkanir og hertar reglur á landamærunum ollu hiki á meðal ferðamanna, segir í tilkynningunni, en félagið sé vel í stakk búið að takast á við óvissu „með traustri fjárhagsstöðu og miklu handbæru fé“.

Enn fremur segir að viðtökur á Bandaríkjamarkaði hafi verið góðar eftir að Play hóf sölu á flugmiðum til Boston og Washington um miðjan desember. 

„Rekstrarumhverfi allra flugfélaga hefur verið krefjandi en okkur tókst að auka markaðshlutdeild okkar og koma PLAY í mjög góða markaðsstöðu. Þar með erum við í stakk búin til að gernýta komandi uppsveiflu nú þegar við stækkum leiðarkerfi okkar til Bandaríkjanna í vor. Við höfum starfað á fremur litlum og afmörkuð mörkuðum á fyrstu sex mánuðunum en höfum þar náð að afla trausts rúmlega 100.000 viðskiptavina í flóknu rekstrarumhverfi. Það er afrek,“ er haft eftir Birgi Jónssyni forstjóra í tilkynningunni.

Þórgnýr Einar Albertsson