Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

75.000 krónur fyrir að fá vin til starfa á leikskóla

07.01.2022 - 20:18
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Starfsfólk leikskóla í Reykjavík mun fá 75 þúsund króna launaauka fyrir að fá vin eða ættingja til starfa á leikskóla. Tillagan er hluti af átaki borgarinnar í ráðningar- og mannauðsmálum og var samþykkt af borgarráði á þriðjudag.

Verkefnið Brúum bilið gengur út á fjölgun leikskólarýma í borginni, sem kallar vitanlega á aukinn mannskap til starfa. „Verkefnið er krefjandi, sérstaklega í ljósi þess að hingað til hefur það reynst áskorun að manna alla leikskóla Reykjavíkur og árlega fer mikil vinna og undirbúningur í það verkefni“ segir í tillögunni.

Áskorun að fá mannskap

7. október á síðasta ári var staðan sú að enn vantaði 46 starfsmenn miðað við grunnstöðugildi og 17 til viðbótar í afleysingar. Til þess að standa undir fjölgun leikskólaplássa næstu 3-4 árin, má gera ráð fyrir að þurfi að ráða 250-300 starfsmenn til viðbótar á leikskóla í borginni.

„Það er því mat mannauðsþjónustu og leikskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar að gera þurfi meira en í meðalári til að styðja leikskóla í ráðningar- og mannauðsmálum“ segir í tillögunni. Þá eru megin áherslur verkefnisins tvær, annarsvegar að laða að fleiri umsækjendur og hins vegar að hlúa að starfsumhverfinu og draga úr starfsmannaveltu.

Launaauki ef vinur eða ættingi er ráðinn í meira en 3 mánuði

Einn liður í verkefninu felst í að hvetja starfsmenn til þess að fá vini eða ættingja til starfa á leikskólum borgarinnar. Þá fær starfsmaður 75.000 króna launaauka, þegar þriggja mánaða ráðningarsamband hefur átt sér stað. Þetta er áætlað að gildi út mars.

Til þess að hlúa betur að því starfsfólki sem vinnur á leikskólum er svo ýmislegt nefnt í tillögunni, til dæmis að hafa lokað á aðfangadag og gamlársdag, stytta vinnuvikuna, auka við fræðslu og möguleika á námsleyfum.