Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Það er ekki allt að fara til fjandans

Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso / RÚV
Niðurstaða umræðna í Heimsglugganum í morgun var sú að þrátt fyrir mörg vandamál sem steðja að mannkyni sé einnig margt jákvætt að gerast og því óþarfi að telja að allt sé að fara í hundana. Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir ræddu við Boga Ágústsson um ástand heimsins í byrjun nýs árs. Í flestum ríkjum heims er til siðs að leiðtogar ávarpi landa sína og spiluð voru brot úr ræðum nokkurra ráðamanna.

Það virðist sameiginlegt öllum að rætt var um kórónuveirufaraldurinn, en með mjög misjöfnum hætti. Bogi sagði og áhugavert hvað leiðtogarnir ræddu annað og hvað þeir ræddu ekki.

Kosningar á árinu

Þá var rætt um forsetakosningar sem verða meðal annars í Frakklandi, Filippseyjum og Brasilíu og nokkrar aðrar áhugaverðar kosningar svo sem til þings Norður-Írlands. Þar eru horfur á að sambandssinnaðir mótmælendur missi meirihlutann sem þeir hafa haldið frá stofnun Norður-Írlands fyrir 100 árum.

Lítum á björtu hliðarnar

Bogi minnti í lokin á að þó að mörgum sýndist útlitið heldur svart hefði margt jákvætt gerst. Heimsglugginn endaði á því að leikið var Monty Python lagið góða um að við eigum alltaf að líta á björtu hliðarnar í lífinu, Always look on the bright side of life.