Segir 30 nýjar neyðarstöðvar í göngunum skapa hættu

06.01.2022 - 13:12
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Unnið er að því að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum eftir athugasemdir eftirlitsstofnunar EFTA. Framkvæmdarstjóri ganganna segir fjölgunina vera peningasóun sem veiti falskt öryggi.

30 nýjar neyðarstöðvar

Undir lok síðasta árs var sagt frá því að göngin um Almannaskarð, Vaðlaheiði og Fáskrúðsfjörð uppfylltu ekki allar lágmarkskröfur sem gerðar eru um umferðaröryggi hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Athugasemdir stofnunarinnar um Vaðlaheiðargöng snérust um að of langt er milli neyðarstöðva. Hafa starfsmenn ganganna þegar hafið vinnu við við að bæta við 30 slíkum stöðvum sem innihalda slökkvitæki og síma. Valgeir Bergmann, framkvæmdarstjóri segir að við gerð ganganna hafi verið ákveðið að eyða peningum í annað. 

Sjá einnig: EFTA skammar Ísland vegna jarðganga

Geta skapað hættu

„Það til dæmis var sett upp fjarskiptasamband í öll göngin sem er ekki krafa um þannig að það geta allir hringt í Neyðarlínuna úr sínum snjallsímum, hvar sem er í göngunum. Þá var bætt í slökkvibíla og annað til að bæta öryggið. Ég vill meina að það að fjölga þessum neyðarstöðvum sé nú ekki til að bæta öryggið heldur en síður sé, þar sem þessar neyðarstöðvar eru ekki við útskot,“ segir Valgeir. 

Þannig að það geti valdið hættu að hafa svona margar neyðarstöðvar?

„Já ég vill meina það því ef menn ætla að stoppa bílana sína til að tala í þessa síma þá eru þeir að stoppa á miðjum vegi en ekki í útskotum.“

Hann segir kostaður hlaupa á milljónum.  „Það er mikill kostnaður í ekki neitt. Ég myndi segja svona 10-15 milljónir.“