Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Orð ársins 2021 eru óróapúls og bólusetning

Orð ársins 2021 að mati notenda RÚV er óróapúls. Árnastofnun valdi orðið bólusetning sem orð nýliðins árs.
 Mynd: EPA - RÚV

Orð ársins 2021 eru óróapúls og bólusetning

06.01.2022 - 16:33

Höfundar

Orð ársins 2021 að mati notenda RÚV er óróapúls. Árnastofnun valdi orðið bólusetning sem orð nýliðins árs.

Undir lok hvers árs kallar RÚV eftir tillögum almennings að orði ársins. Orðin verða að vera einkennandi fyrir árið sem er að líða. Valnefnd, skipuð dagskrárstjóra Rásar 1, vefritstjóra á rúv.is og málfarsráðunaut, velur úr tillögum og stillir upp lista yfir orðin sem valið stendur um. Að þessu sinni voru eftirfarandi orð á listanum: blóðmeri, bólusetningaröfund, byrlun, gerendameðvirkni, hitamet, hraðpróf, kvár, óróapúls, útilokunarmenning, stálp, sviðsmynd, undirbúningskjörbréfanefnd, úrkomuákefð, úrvinnslusóttkví og örvunarskammtur.

Orðið óróapúls varð hlutskarpast í valinu á rúv.is. Mjótt var á munum milli efstu tveggja orðanna og almennt var dreifing atkvæða milli orðanna, sem valið stóð um, nokkuð jöfn. Það bendir til þess að árið hafi verið viðburðaríkt á fjölmörgum sviðum. Óróapúls hlaut þannig aðeins tæp 17% atkvæða og orðið örvunarskammtur, sem var í öðru sæti, fékk aðeins 16,5% atkvæða. Þriðja sætið hreppti orðið gerendameðvirkni með tæp 14% atkvæða. Önnur orð á listanum fengu á bilinu 1,5% til 12% greiddra atkvæða.

Óróapúls

Verði jarðskjálftar í skjálftahrinu svo tíðir að erfitt eða ógerlegt reynist að greina á milli þeirra er talað um óróapúls. Slíkt mynstur getur meðal annars bent til þess að eldgos sé í vændum. Óróapúls kom títt fram á jarðskjálftamælum í aðdraganda eldgoss á Reykjanesskaga í mars 2021 á meðan kvikan var að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna.

Orðið órói er notað um titring sem getur stafað af ýmsum ferlum í náttúrunni. Í orðinu óróapúls er það skjálftafræðilegt hugtak, að sögn Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings, og stytting á hugtakinu skjálftaórói. Það er þýðing á enska hugtakinu seismic tremor. Páll segir að það eigi við um samfelldan titring í jörðinni sem geti stafað af ýmsum ferlum í náttúrunni. „Óróapúls þýðir í þessu sambandi einfaldlega skammvinnur órói, það er órói sem stendur í mínútur eða tugi mínútna. Þetta gerðist nokkrum sinnum í gangainnskotinu síðastliðinn vetur, í aðdraganda gossins í Fagradalsfjalli," segir Páll. Það hafi verið dæmigerður kvikuhlaupsórói sem að líkindum hafi verið þétt röð af litlum jarðskjálftum. 

Órói getur orðið vegna vinds, öldugangs á strönd, vatnsstraums, eldgoss eða kvikuhlaupa og eru um það notuð orð eins og vindórói, brimórói, vatnsórói, hlaupórói og gosórói. 

Ágústa Þorbergsdóttir, sérfræðíngur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, segir að flest samsett orð í íslensku sem enda á -púls séu úr læknisfræði, svo sem hraðpúls og óreglupúls. „Óróapúls í jarðvísindum hefur ekkert með slagæðar að gera heldur vísar púls þar til höggs eða til stuttrar breytingar á einhverju fyrirbæri sem jafnan er stöðugt,“ segir hún. Púls hafi þessa merkingu í ýmsum fleiri fræðigreinum. „Orðið púls er annars tökuorð í íslensku úr dönsku en það er upprunalega komið úr latínu, pulsus, sem merkir högg eða æðasláttur.“

Nýjustu orðin í Risamálheildinni

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum safnar upplýsingum um málnotkun árið um kring. Stöðugt bætast fjölbreyttir textar í svokallaða Risamálheild og nýjustu gögnin í henni eru notuð til að finna orð ársins. Það eitt dugir þó ekki til og orðin sem til greina koma verða að hafa eitthvað fram yfir önnur orð. Þau verða að segja eitthvað um samtímann eða samfélagsumræðuna. Orðin verða að eiga möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða vera minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu, vera lýsandi fyrir málnotkun, annað hvort almennt eða á tilteknu sviði, og þau verða annað hvort að vera ný í málinu, eða gömul og hafa fengið nýja merkingu.

Orð ársins hjá Árnastofnun er bólusetning. Önnur orð sem komu til greina voru slaufunarmenning, litakóðunarkerfi, hraðpróf, uppkosning, kvár, stálp, götuhleðsla, hverfahleðsla, óróapúls, gosmóða og kvikugangur.

Bólusetning

Orðið bólusetning er að sjálfsögðu ekki nýtt í málinu enda hafa bólusetningar tíðkast á Íslandi í um 200 ár en stóraukin notkun orðsins bólusetning fleytti orðinu efst á listann yfir orð ársins 2021.

Ágústa nefnir að bólusetningar hafi auk þess sett mark sitt á stóran hluta landsmanna sem flestir stóðu í löngum röðum til að láta dæla í sig áður óþekktu efni undir dynjandi popptónlist. „Bólusetning hefur um áratugaskeið verið eðlilegur hluti af árlegum læknaheimsóknum barna og undirbúningi ævintýragjarnra Íslendinga á framandi slóðir,“ segir Ágústa. „Einhver umræða um gagnsemi og mögulega fylgikvilla bólusetninga hefur skotið upp kollinum af og til en hún stórjókst á seinasta ári.“ Hún bendir á að skyndilega hafi allir kunnað skil á mismunandi tegundum bóluefna og fólk jafnvel kennt sig við þær. „Þannig var Jón Jansen-maður á meðan Pála var Pfizer-kona. Flestir treystu Þórólfi, gerðust bólusetningarsinnar, fylgdust samviskusamlega með bólusetningardagatalinu og mættu glaðbeittir í árgangabólusetningu á meðan anti-bólusetningarsinnar sátu sem fastast fyrir framan tölvuna og vöruðu við nauðungarbólusetningu.“

Uppruni orðsins bólusetning er áhugaverður. Við upphaf 19. aldar var byrjað að bólusetja við skæðum smitsjúkdómi sem á íslensku kallast bólusótt. Enskur læknir, Edward Jenner, tók eftir því að mjaltastúlkur sem höfðu fengið kúabólu veiktust síður af bólusótt. Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum, segir að það sé vegna þess að veirurnar sem valda kúabólu og bólusótt eru skyldar. Jenner hóf að sýkja fólk af kúabólunni í því skyni að koma í veg fyrir að það smitaðist af bólusótt, eða bólusetja það. Enska orðið vaccine, sem merkir bóluefni, er dregið af latneska orðinu vaccina, sem merkir „fengið úr kúm og er myndað úr orðinu vacca sem merkir kýr. Þannig hefur enska heitið færst yfir á bólusetningar almennt rétt eins og íslenska heitið. Magnús greinir frá því að það hafi svo verið enginn annar en Louis Pasteur sem hóf að nota orðið vaccine nokkrum áratugum eftir uppgötvun Jenners. Pasteur yfirfærði orðið á önnur bóluefni sem hann þróaði og útvíkkaði þannig hugtakið. 

Til gamans má geta þess að orð ársins 2021 hjá orðabókarisanum Oxford er vax, sem er stytting á orðinu vaccination.

Færslan hefur verið uppfærð með nákvæmari skýringum á orðum ársins 2021.
 

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Þríeykið og sóttkví eru orð ársins 2020

Íslenskt mál

Hamfarahlýnun er orð ársins 2019