Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Níu smit af hverjum tíu af völdum omíkron

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Útbreiðsla omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar hér á landi hefur verið afar hröð síðustu daga. Níutíu prósent covid-sýkinga innanlands eru af omíkron-afbrigðinu. Þetta segir í færslu á vef embættis landlæknis. Tíu prósent smitanna eru vegna delta-afbrigðisins.

Fyrirspurnum frá almenningi um hvaða veiruafbrigði viðkomandi hafi greinst með hefur fjölgað umtalsvert. Íslensk erfðagreining annast raðgreiningar vegna covid-19 á Íslandi. Öll jákvæð sýni eru raðgreind en eina til tvær vikur tekur að fá niðurstöður.

Upplýsingar væntanlegar á Heilsuveru

„Stefnt er að því að þessar upplýsingar komi inn í Heilsuveru hvers og eins á næstu dögum. Einstaklingar eru beðnir að sýna biðlund og nálgast þessar upplýsingar þar,“ segir á vef landlæknis.

Fyrirspurnum varðandi hvaða afbrigði fólk hafi greinst með verði ekki svarað að öðru leyti hjá embætti landlæknis eða annars staðar.

Þórgnýr Einar Albertsson