Logi Bergmann vísar ásökunum á bug

06.01.2022 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Logi Bergmann kveðst „saklaus af þeim sökum sem á mig hafa verið bornar undanfarna daga.“ Hann hafi alla ævi haft andstyggð á hvers kyns ofbeldi og staðið með fórnarlömbum þess og stutt baráttu þeirra. Þetta skrifar hann á Facebook í kvöld.

Nafn Loga Bergmanns kom upp eftir viðtal Eddu Falak við Vítalíu Lazarevu í hlaðvarpinu Eigin konur í gær. Þar greindi hún meðal annars frá golfferð sem hún fór í með ástmanni sínum og félögum hans. „Þetta er náttúrulega, innan gæsalappa, eins og það sé verið að selja mann út, að ég sé einhvers konar vændiskona. Bara boðið þessum einstaklingi sem labbar inn á okkur að snerta mig óviðeigandi, að við séum öll ber saman,“ lýsti Vítalía í viðtalinu.

Logi vísar þessu á bug og segir á Facebook að ekkert sé fjær honum eð að þröngva annarri manneskju til kynferðislegra athafna. „Ég er hins vegar sekur um að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem ég átti ekki að fara inn í,“ skrifar Logi. Það hafi verið taktlaust og heimskulegt og hann hafi tjáð viðkomandi að hann taki ábyrgð á því. Loks segist Logi ekki ætla að tjá sig meira um þetta mál.

Þrír áhrifamenn í íslensku viðskiptalífi drógu sig hver af öðrum í hlé frá störfum í dag vegna meintra brota þeirra. Vítalía sagði í sama þætti frá því að hún hafi verið með ástmanni sínum í sumarbústað með áhrifamönnunum þremur. Þau fóru öll saman í heitan pott þar sem hún segir mennina hafa brotið á sér. Hreggviður Jónsson vék úr stjórn Veritas og tengdra fyrirtækja, og sagðist í yfirlýsingu harma að hafa ekki stigið út úr þeim aðstæðum sem Vítalía skýrði frá. Hinir tveir voru Ari Edwald, sem fer í leyfi frá Ísey útflutningi, systurfélagi MS, og Þórður Már Jóhannesson lét af störfum sem stjórnarformaður Festar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV