Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Í leyfi hver af öðrum eftir ásakanir Vítalíu

Mynd: Edda Falak / Eigin konur
Nokkrir áhrifamenn í íslensku viðskiptalífi hafa í dag hver af öðrum farið, eða verið sendir í leyfi vegna ásakana um kynferðisbrot. Á meðal þeirra er stjórnarformaður Festar sem er eitt stærsta fyrirtækið á íslenskum markaði.

Vítalía Lazareva steig fram í viðtali í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í gær og lýsti upplifun af kynferðislegu ofbeldi sem hún sætti af hálfu þjóðþekktra manna. Um var að ræða tvö aðskilin  tilvik.

Í því fyrra var Vítalía stödd með ástmanni sínum í ótilgreindum sumarbústað með þremur mönnum. Þau fóru öll saman í heitan pott þar sem hún segir mennina hafa brotið á sér. „Þetta fór alveg yfir öll mörk, hjá öllum held ég bara,“ lýsir Vítalía í hlaðvarpinu.

Í nokkrar vikur hafa verið sögusagnir um að mennirnir fjórir séu þjóðþekktir og áhrifamenn í viðskiptalífinu. Eftir þáttinn fóru nöfn þeirra að birtast á samfélagsmiðlum og í dag var tilkynnt að þeir væru farnir í leyfi, hver af öðrum.

Áhrifamenn um langt skeið

Þetta eru þeir Ari Edwald. Hann fer í leyfi frá Ísey útflutningi, systurfélagi MS þar sem hann var áður forstjóri. Áður var Ari forstjóri 365 Miðla, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og aðstoðarmaður ráðherra.

Hreggviður Jónsson sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann tilkynnti að hann viki úr stjórnum Veritas Capital og tengdra fyrirtækja. Hann segist harma að hafa ekki stigið út úr þeim aðstæðum sem Vítalía skýrði frá og að það hafi verið þungbært að heyra um hennar reynslu. Hann segist líta málið alvarlegum augum en hafi ekki gerst brotlegur við lög. Hreggviður er stofnandi Veritas sem á nokkur félög á sviði heilbrigðisþjónustu en hann var áður formaður Viðskiptaráðs og forstjóri Norðurljósa.

Stjórn Festar, sem er fjórða stærsta fyrirtæki landsins og á meðal annars N1, Krónuna og Elkó, tilkynnti eftir lokun markaða að Þórður Már Jóhannesson hefði óskað eftir að láta af störfum sem stjórnarformaður. Þórður Már var forstjóri Straums í upphafi aldarinnar en stofnaði síðar fjárfestingafélagið Gnúp sem féll í aðdraganda bankahrunsins. Forstjóri Festar, Eggert Þór Kristófersson, svaraði ekki símtölum fréttastofu.

Fjórði maðurinn, umræddur ástmaður Vítalíu, er Arnar Grant, einn helsti líkamsræktarfrömuður landsins um árabil. Hann er farinn í tímabundið leyfi frá störfum sínum í World Class.

Afdrifarík golfferð

Í síðara tilvikinu sakar Vítalía þekktan fjölmiðlamann um að hafa brotið á sér á hótelherbergi í golfferð sem Arnar og félagar hans voru í. „Þetta er náttúrlega, innan gæsalappa, eins og það sé verið að selja mann út, að ég sé einhvers konar vændiskona. Bara boðið þessum einstaklingi sem labbar inn á okkur að snerta mig óviðeigandi, að við séum öll ber saman,“ lýsti Vítalía í viðtalinu.

Umræddur fjölmiðlamaður er Logi Bergmann, nú dagskrárgerðarmaður á K100. Hann tjáði sig stuttlega um málið í síðdegisþætti sínum í dag: „Ég hef verið betri en við ætlum að gera hérna útvarpsþátt. Ég hendi einum þætti í loftið núna og svo fer ég kannski í smá frí og við sjáum bara til hvað gerist.“

Hvorki Logi né Magnús E. Kristinsson, útvarpsstjóri K100 svöruðu símtölum fréttastofu.