Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Google og Facebook sektuð um milljarða króna

06.01.2022 - 18:31
epa07670239 A Google logo is displayed at the Google offices in Berlin, Germany, 24 June 2019.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Persónuverndarstofnun Frakklands sektaði tæknirisana Google og Facebook í dag um samtals 210 milljónir evra, andvirði um 30 milljarða króna. Þar af var Google sektað um meirihlutann, eða 150 milljónir evra. The Guardian greinir frá þessu.

Fyrirtækin tvö voru sektuð fyrir að hafa takmarkað getu viðskiptavina til þess að koma í veg fyrir að Google og Facebook fylgist með athöfnum þeirra á veraldarvefnum. 

Það gerðu fyrirtækin með því að gera notendum erfiðara fyrir að neita svokölluðum vafrakökum en það eru litlar textaskrár þar sem upplýsingum um nethegðun er safnað.

„Þegar maður samþykkir þessar vafrakökur þarf maður bara að smella á einn takka. Það ætti að vera alveg jafneinfalt að hafna þeim,“ sagði Karin Kiefer, stjórnandi hjá stofnuninni.

Upplýsingafulltrúi hjá Google sagðist ætla að vinna með frönsku stofnuninni að því að laga vankanta á kerfum sínum og upplýsingafulltrúi hjá Facebook sagði slíkt hið sama.

Þórgnýr Einar Albertsson