Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórðungur samningafólks vel undirbúinn

06.01.2022 - 18:30
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Aðeins í þremur tilvikum af þrjú hundruð og fjörutíu í síðustu kjarasamningalotu tókst að ljúka samningum áður en fyrri samningur rann út. Ríkissáttasemjari segir brýnt að hækka þetta hlutfall verulega og hvetur verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur til að að undirbúa samningafólk sitt vel og hefja samtalið sem fyrst. 

Brýnt að byrja að ræða saman sem fyrst 

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins byrji sem fyrst að tala saman á nýju ári til að undirbúa næstu kjarasamningslotu. Lífskjarasamningurinn sem skrifað var undir í apríl 2019 á almennum vinnumarkaði rennur út í byrjun nóvember. 

Aðeins í 1% tilvika tókst að semja 

„Það er þannig á Íslandi að það er mjög fátítt að samningur taki við af samningi eins og kallað er, að það sé búið að undirrita kjarasamning áður en sá fyrri rennur út" segir Aðalsteinn í samtali við Spegilinn. „Hlutfallið á Íslandi er í kringum 1% af öllum samningum á vinnumarkaði. Ég gerði könnun á meðal samningafólks á síðasta ári og spurði m.a. hvað getum við gert til þess að breyta þessu og fá þetta hlutfall upp þannig að fleiri tilvik verði þar sem að samningur tekur við af samningi. Ein af megin ábendingunum var að byrja fyrr að undirbúa sig og byrja fyrr að tala saman". 

Hvetja samninganefndir til að byrja fyrr.

Hvert er þitt hlutverk í að greiða fyrir að svo verði?

„Það er aðallega tvennt sem stendur upp úr í því. Annars vegar að þá erum við búin að setja upp núna fimm námsstefnur í samningagerð, þriggja daga námsstefnur þar sem við köllum saman aðila vinnumarkaðarins, fólk beggja megin borðs, til þess að ræða saman um sameiginlega hagsmuni og um kjarasamningaferlið. Hugsunin með þessu er að hvetja samninganefndirnar til þess að undirbúa sig vel og til þess að byrja undirbúninginn fyrr.

Hins vegar höfum við verið að vinna að örlítið breyttu verklagi í kjarasamningagerðinni, alla vega hvað okkur snýr hjá ríkissáttasemjara. Við erum að hnippa í aðila og samninganefndirnar og spyrja spurninga. Eruð þið búin að vinna í þessum bókununum úr síðasta samningi? Eruð þið búin að skipa samninganefndir, er undirbúningur hafinn?  Við bjóðum aðstöðu hjá okkur til sáttafunda, jafnvel í málum sem ekki er búið að vísa með formlegum hætti til ríkissáttasemjara. Og einnig að bjóða fram aðstoð, stutt námskeið og samtöl um það hvernig best er að standa að undirbúningi fyrir samningalotuna".

Allt að fjórðungur undirbýr sig vel

„Við fundum það í könnun sem við gerðum á meðal samninganefndarfólks að  fólk í samninganefndum skiptist í tvo hópa. Annars vegar þá sem undirbúa sig gríðarlega vel, sem er u.þ.b. 20-25% af hópnum. Síðan er um 60% samningafólks sem ver einum vinnudegi eða skemur í undirbúning fyrir fyrsta samningafund, sem er allt of stuttur tími.

En í sömu könnun kom einnig fram að mjög stór meirihluti samninganefndarfólks er mjög opinn fyrir því að byrja undirbúninginn fyrr, kallar eftir því að fá fræðslu og vill hafa fræðslu og samtal sem innihaldsríkast.  Vill frekar fá þriggja daga námsstefnu en stuttan fyrirlestur. Þannig að ég finn fyrir því að það er vilji til þess að taka þessi vinnubrögð áfram og byrja fyrr" segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Hægt er að hlusta á lengri útgáfu viðtalsins í spilaranum hér að ofan 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV