Botnliðið vann sinn fyrsta leik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Botnliðið vann sinn fyrsta leik

06.01.2022 - 20:46
Þór Akureyri lagði Grindavík að velli í æsispennandi leik á Akureyri í Subwaydeild karla í körfubolta í kvöld, 82-80. Þetta var fyrsti sigur Þórs í vetur eftir 10 tapleiki.

Leikurinn á Akureyri í kvöld var jafn og spennandi allan tímann. Þórsarar voru yfir í leikhléi, 40-37. Grindvíkingar voru komnir stigi yfir fyrir lokafjórðunginn en þar reyndust heimamenn sterkari og unnu með 82 stigum gegn 80. Grindavík átti lokaskotið en þriggja stiga tilraun þeirra geigaði.

Þrátt fyrir fyrsta sigur vetrarins eru Þórsarar enn neðstir í deildinni. Nú eru þeir með tvö stig, tveimur færri en Vestri. Vestri sótti Keflavík og tapaði með 78 stigum gegn 71.

Keflavík er áfram í efsta sæti deildarinnar, nú með 20 stig eftir 12 leiki. Þór Þorlákshöfn er með 16 stig í öðru sæti og eiga leik til góða. Grindavík er í þriðja sæti með 14 stig eins og Njarðvík en Njarðvíkingar eiga leik til góða.

Tveir leikir eru á dagskrá deildarinnar annað kvöld; Breiðablik fær KR í heimsókn klukkan 18:15 og klukkan 20:15 er leikur Þórs Þorlákshafnar og Njarðvíkur.