Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kólumbíumaður ákærður vegna morðsins á forseta Haítí

epa09332673 Police officers guard a group of suspects of having participated in the assassination of the Haitian President, Jovenel Moise, in Port-au-Prince, Haiti, 08 July 2021. The Haitian National Police reported that so far six people were arrested for their alleged involvement in the assassination of President Jovenel Moise, and four others have been killed. Three of the four assailants who died were foreigners, said Police Director General Leon Charles, who did not provide further information about their nationality.  EPA-EFE/Jean Marc Herve Abelard
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Kólumbískur uppgjafahermaður hefur verið ákærður fyrir að hafa ráðið Jovenel Moise forseta Haítí af dögum í júlí síðastliðnum. Lífstíðarfangelsi gæti beðið hans verði hann fundinn sekur.

Mario Palacios er sagður hafa lagt á ráðin ásamt öðrum um að ræna forsetanum eða myrða hann, að því er fram kemur í yfirlýsingu bandaríska dómsmálaráðuneytisins.

Um tíma þótti skorta á sönnur aðildar hans að morðinu. Honum var vísað úr landi á Jamaíka þar sem hann dvaldi en hann var á leið heim til Kólumbíu þegar hann var svo handtekinn á flugvelli í Panama.

Þaðan var flogið með hann til Miami á Flórída síðdegis á mánudag. Palacios samþykkti framsal af fúsum og frjálsum vilja en gæti átt yfir höfði sér lífstíðar fangelsi verði hann fundinn sekur.

Talið er að 20 aðrir Kólumbíumenn og hópur manna með tvöfalt haítískt og bandarískt ríkisfang hafi staðið að morðinu. Tugir hafa verið handteknir vegna gruns um aðild en þrír Kólumbíumenn féllu í valinn í aðgerðum hersins á Haítí strax eftir að morðið var framið. 

Ariel Henry forsætisráðherra landsins, sem farið hefur verið með völd frá því að Moise var myrtur, segist sjálfur hafa átt að vera skotmark morðingja um síðustu helgi. Hann fagnar ákærunni á hendur Palacios.