Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kennari handtekinn vegna gruns um ólöglega bólusetningu

epa09666170 A medical worker fills syringes with Moderna and Biontech vaccines against Covid-19 inside the Sage Beach Bar and Restaurant l in Berlin, Germany, 04 January 2021. In a measure to reach more people, restaurants and clubs in Berlin start a Covid-19 vaccination campaign, where citizens get their vacine shots at the clubs & restaurants in the German capital.  EPA-EFE/FILIP SINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Líffræðikennari við skóla í New York í Bandaríkjunum var handtekin á gamlársdag grunuð um að hafa gefið 17 ára nemanda sínum sprautu með bóluefni gegn COVID-19.

Kennarinn hefur enga formlega menntun sem heimilar henni að bólusetja fólk en nemandinn er sagður hafa viljað þiggja sprautuna. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum þar sem umrædd kona, Laura Russo, er nafngreind. 

Hún gæti þurft að sæta fjögurra ára fangelsi fyrir athæfið en það voru foreldrar drengsins sem tilkynntu lögreglu um málið en þeirra samþykki lá ekki fyrir.

Það getur verið hættulegt að sprauta fólk án þess að hafa til þess þjálfun. Læknar eða annað heilbrigðisstarfsfólk þarf að staðfesta að bóluefni sé hvorki svikið né útrunnið og kanna ber heilbrigðissögu þess sem þiggur bólusetninguna. Jafnframt ber að fylgjast grannt með viðbrögðum þess sem sprautuna fær allnokkra stund.

Lögregla segir ekki ljóst hvernig Russo komst yfir hið meinta bóluefni né heldur hver framleiðandi þess er, en efni Pfizer-BioNTech er það eina sem hefur markaðsleyfi þar vestra, fyrir fólk yngra en átján ára.

Líffræðikennaranum hefur verið vikið tímabundið frá störfum við skólann þar sem hún kennir en réttarhöld yfir henni hefjast 21. janúar næstkomandi.