Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Forstjóri Norðurorku biður fólk að sóa ekki orku

05.01.2022 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: vefur Norðurorku - Rúv
Norðurorka hefur kynnt hækkanir á allri verðskrá sinni og tóku þær gildi nú um áramótin. Sífellt er kallað eftir aukinni orku og forstjóri fyrirtækisins segir mikilvægt að almenningur líti ekki á vatn og rafmagn sem óþrjótandi auðlind.

Sífelld þörf fyrir nýjar auðlindir

Hækkunin nemur 4,2 prósentum á hitaveitu, rafveitu og fráveitu en 2,5 prósentum á vatnsveitu. Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, segir hækkanirnar byggja á tölum síðasta árs og fyrirséðum verðbreytingum á árinu. Hann segir innviðauppbyggingu hafa verið mikla hjá fyrirtækinu enda sé sífelld þörf fyrir að sækja nýjar auðlindir. Framkvæmdir til að auka orkumátt hitaveitunnar er eitt stærsta verkefni fyrirtækisins.

„Ef maður horfir á þessar jarðhitaauðlindir sem við eigum eru þær ekki óþrjótandi þó við einhvern veginn í samtímanum teljum svo vera. Ef við horfum fram í tímann og eyðum alltaf meiru og meiru þá er mjög dýrt að sækja nýjar auðlindir fjarri þeim stöðum sem við erum í dag. Það er alveg sjálfsagt að nýta þessa auðlind til að auka lífsgæði sín en allt umfram það er bruðl eða sóun,“ segir Helgi.

Rafmagn þarf ekki að hækka í verði ef notkunin er rétt

Það hefur verið töluverð endurnýjun á dreifikerfi rafmagns Norðurorku síðustu ár. Helgi segist finna fyrir auknum þrýstingi á innviðabreytingar vegna rafbílahleðslna en ekki séu enn mælanlegar breytingar á dreifikerfinu vegna aukningar á notkun rafhleðslu. Hægt sé að koma í veg fyrir frekari hækkanir í rafmagni ef orkunotkunin er rétt.

„Ef að fólk er að nýta rafmagnið vel, t.d. að fólk sé ekki í pissukeppni að kaupa sér stórar rafhleðslur fyrir rafbílinn. Það nægir oft 6-7 kílóvatta stöð. Þá munu dreifikerfið og innviðirnir geta dugað miklu lengur án framkvæmda,“ segir Helgi. 

Hann segir Norðurorku ekki vera fyrirtæki sem sækist eftir að auka sífellt söluna. „Við erum fyrirtæki sem viljum ekki endilega selja mikið af þessu. Við erum bara í þjónustu fyrir fólk og gerum það sem þarf en þetta eru alla vega skilaboðin okkar, ekki sóa orkunni!“