
Bólusetningar barna færðar í Laugardalshöll
Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mbl.is greindi fyrst frá.
Starfsfólk í sóttkví
„Við lögðumst yfir planið í morgun og áttum fundi með okkar stjórnendum og vorum að meta ástandið. Við erum mjög hölt út af omíkron og margt starfsfólk er í sóttkví eða einangrun. Við sáum að það var veruleg áhætta að reyna að gera þetta í skólunum. Þá urðum við að taka plan B, að fara í Höllina,“ segir Ragnheiður Ósk.
Heilsugæslan geti verið með minni hóp starfsfólks í Laugardalshöll enda sé þá allt starfsliðið á sama stað. Þannig sé hægt að bregðast við mönnunarvanda.
Nokkuð miklar tilfæringar
Bólusetningarnar hefjast á mánudaginn og vinnur heilsugæslan nú að skipulagningu, segir Ragnheiður Ósk sem var stödd í Laugardalshöll þegar fréttastofa ræddi við hana.
„Við þurfum að fara í nokkuð miklar tilfæringar. Við ætlum að vera með 25 til 30 einstaklingsrými til að taka á móti hverju barni og gefa því þann tíma sem það þarf,“ segir Ragnheiður Ósk.
Eldri börnin í aldurshópnum verða saman í stærra rými í sjálfum salnum. Óskað hefur verið eftir því að skjár verði settur aftur upp. „Við gætum ef til vill haft eitthvað skemmtilegt þar. Við erum að hugsa hvað við getum gert til að gera þessa heimsókn skemmtilegri.“