
Trump og tvö elstu börn hans boðuð til yfirheyrslu
Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tvö elstu börn Trumps eru kölluð til vitnisburðar í málinu. Fyrirtækið hefur verið til rannsóknar frá 2019 en Trump neitar alfarið að nokkuð glæpsamlegt sé við viðskiptagjörninga þess.
Málið varðar meint skattaundanskot og bankasvik. Grunur leikur á að Trump Organization hafi annars vegar ofmetið verðmæti fasteigna við lántökur og tilgreint mun lægra verðmæti við skattskýrslugerð. Með því hafi fyrirtækið komist upp með að greiða mun lægri skatta en ella hefði verið.
Donald Trump höfðaði mál á hendur James eftir að Washington Post flutti fréttir af því að hún hefði boðað hann til yfirheyrslu 7. janúar næstkomandi.
Allt verði gert til að komast hjá því að sinna boðun hennar. Alina Habba, lögmaður Trumps, segir að aðgerðir ríkissaksóknarans séu ógn við lýðræðið sem brugðist verði við af fullri hörku.
Talsmaður saksóknarans kvaðst í gær sannfærður um að embættið fengi svör við spurningum sínum. Þannig verði sannleikurinn í málinu dreginn fram í dagsljósið.
Eric Trump, varastjórnarformaður Trump Organization, var yfirheyrður vegna málsins í október 2020. Réttarhöld hefjast um mitt ár yfir Allen Weisselberg fjármálastjóra fyrirtækisins vegna ákæra í 15 liðum um fjársvik og skattaundanskot.