Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þýska stálið staðið af sér fimm sprengingar

04.01.2022 - 17:37
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RUV
Vindmyllurnar í Þykkvabænum eru traust mannvirki og það gengur illa að fella aðra þeirra sem kviknaði í á nýársdag. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið í Þykkvabænum síðan fyrir hádegi og reynt að fella mylluna en án árangurs. Fimm tilraunir hafa verið gerðar, sú síðasta nú um klukkan sex. Nokkuð sér á vindmyllunni en hún stendur enn.

Tvær vindmyllur eru í Þykkvabænum en fyrirtækið sem reisti þær er gjaldþrota. Ásgeir Margeirsson, formaður Háblæs, sagði í hádegisfréttum að til stæði að fella aðra þeirra til að forða tjóni, sérstaklega nú þegar von er á slæmu veðri. Hlutar hennar gætu jafnvel brotnað af í miklum vindi og því yrði reynt að fella hana í dag. En dagurinn dugir varla til, því þrjár tilraunir sprengjusveitarinnar hafa ekki skilað árangri. 

Myllurnar eru þýsk smíði og virðast nokkuð traustar. Þær voru gangsettar 2014 en voru fluttar hingað frá Þýskalandi. Vonast var til að hægt yrði að ljúka verkinu fyrir myrkur en það tókst ekki. Síðasta sprengingin var nú í ljósaskiptunum en sú dugði skammt. Áfram á að reyna að fella mylluna, því löskuð gæti hún reynst enn hættulegri en áður þegar slæmt veður skellur á annað kvöld. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV