Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Samherji skimar starfsfólk eftir jólafrí

04.01.2022 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: samherji.is - Rúv
Það færist í vöxt að fyrirtæki og stofnanir láti skima starfsfólk sitt áður en það mætir til vinnu eftir frí. Skólarnir í Dalvíkurbyggð sem og útgerðarfyrirtækið Samherji eru meðal þeirra sem prófuðu allt sitt starfsfólk þegar það snéri til starfa eftir jólafrí.

Loðnuvertíð að hefjast og mikið undir

Liðlega tvö hundruð starfsmenn vinnsluhúsa Samherja á Dalvík og Akureyri voru skimaðir sem og áhafnir allra skipa fyrirtækisins. Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir sjómenn vana því að fara í skimun fyrir brottför en óvanalegt að allir starfsmenn landvinnslunnar séu prófaðir á sama tíma. Hann segir alla starfsmenn hafa verið tilbúna í skimun sem hafi komið neikvæð út hjá öllum.

Hann segir að skynsamlegt hafi þótt að prófa alla starfsmenn vegna fjölda smita á landinu. Einnig liggi mikið við í starfseminni næstu vikur. „Það er að byrja loðnuvertíð, þannig að það þarf að fara varlega. Það er eins í vinnsluna, janúar er stór mánuður hjá okkur þannig að það er svona ástæðan að við gerum þetta líka, að það er mikið undir þessar vikurnar.“

Gestur segir Samherja greiða fyrir prófin og starfsmenn sjái sjálfir um að framkvæma þau. „Við erum með starfsfólk sem er búið að fara og fá leiðbeiningar þannig að þetta er gert af okkar eigin fólki.“

Prófin veita starfsfólki öryggistilfinningu

Í tveimur skólum í Dalvíkurbyggð sá heilsugæslan um að prófa um 60 starfsmenn skólanna. Friðrik Arnarson, skólastjóri Dalvíkurskóla segir að vegna fjölda smita á landinu hafi það veitt ákveðna öryggistilfinningu fyrir starfsfólkið að fara í skimun. Enginn starfsmaður reyndist smitaður.

Friðrik telur ólíklegt að starfsmenn verði reglulega allir prófaðir. „Ég veit ekki hvort það verður, þetta var alla vega núna í þetta skiptið. Af því að það hefur verið svo mikil óvissa hvað eru mörg smit í samfélaginu en ef það verður einhver hröð aukning eða breyting þá er aldrei að vita nema þetta verði gert aftur en vonandi þarf þess ekki.“