Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nemendum Hagaskóla kennt á þremur stöðum vegna myglu

04.01.2022 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skólastjórnendur í Hagaskóla hafa tilkynnt foreldrum að einhverjar tafir verði á skólabyrjun þessa önnina, bæði vegna myglu sem mælst hefur í húsnæðinu og vegna skipulags sóttvarnaraðgerða. Nemendum skólans verður kennt á þremur stöðum í borginni. 9. bekk verður kennt í Ármúla, 8. bekk á Hótel Sögu en 10. bekkurinn verður áfram í Hagaskóla. Kennsla verður skert í skólanum í þessari viku, en gert er ráð fyrir fullum skóladögum eftir 10. janúar.

Staðfest var að mygla hefði greinst í húsnæði Hagaskóla um miðjan nóvember, en grunur vaknaði um myglu í norðaustur álmu skólans í lok október. Myglan greindist í rými 8. bekkjar, sem hefur síðan verið kennt í 1.100 fermetra rými á Hótel Sögu.

Nú hefur foreldrum verið tilkynnt að þessa önnina verði 9. bekkingum keyrt með rútum í Ármúla 30, þar sem kennsla fari fram út þessa önn.