„Hvet fólk eindregið til þess að fylgjast með spám“

04.01.2022 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Jörgen B. Snædal
Allt stefnir í að mjög djúp lægð komi að landi úr vestri annað kvöld með tilheyrandi vindhraða og úrkomu. Veðurfræðingur hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspám sem geti breyst hratt.

Hvetur fólk til þess að fylgjast með spám

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð og Miðhálendið sem taka gildi annað kvöld. Djúp lægð er á leiðinni og er lægðarmiðjunni spáð vestur af Faxaflóa. Standist spárnar verður þrýstingur hennar mjög mikill. Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur segir erfitt að spá fyrir um hvar veðrið verði verst. „Hún mun í rauninni hafa áhrif á öllu landinu. Það er aðallega vindurinn sem er á suðvestan og vestanverðu landinu en síðan er það úrkoman á suðaustan og austanverðu landinu. Hvet fólk eindregið til þess að fylgjast með spám vegna þess að þær geta breyst og áhrifin geta breyst mikið við litla tilfærslu.“

Hvenær reiknið þið með að þetta gangi niður?

„Svona upp úr hádegi á fimmtudag.“

Sjá einnig: Óvenju djúp lægð í kortunum

„Áhrifin á landi ekki jafn mikil og þessi lægð er djúp“

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur sem heldur úti veðurfræðivefnum blika.is. hefur síðustu daga skoðað lægðina og sló því upp að þarna væri mögulega á leiðinni ein dýpsta lægð sem sést hefði hér um slóðir. Birta segir áhugavert að fylgjast með þróuninni. „Hún hefur aðeins grynnkað í spánum en þetta er vissulega mjög djúp lægð og það verður bara spennandi að sjá hversu djúp hún mun verða. En við erum svona aðallega að horfa á áhrifin á landinu og það má segja að eins og staðan er núna þá verða áhrifin á landi ekki jafn mikil og þessi lægð er djúp.“