Covid-smitaðir tengdasynir byggðu snjóhús á Akureyri

04.01.2022 - 14:33
Mynd: Óðinn Svan / RÚV
Fjölskylda á Akureyri sat alls ekki auðum höndum yfir hátíðirnar heldur byggði sér glæsilegt snjóhús. Danskir tengdasynir í fjölskyldunni eiga mestan heiðurinn af verkinu en þegar húsið var tilbúið var haldin veisla.

Danskir tengdasynir duglegir að byggja

Hjónin Hólmar Svansson og Eyrún Svava Ingvadóttir, lentu ásamt dætrum sínum og tengdasonum í einangrun rétt fyrir jól. Þau veiktust lítið sem ekkert og eins og margir sem þurfa að dúsa í einangrun fundu þau sér nýtt verkefni á meðan á henni stóð og byggðu stærðarinnar snjóhús. Hólmar segir tengdasynina, sem eru danskir, eiga mestan heiður af verkinu. Norðlenski miðillinn Kaffið.is sagði fyrst frá málinu.

„Þá sárvantaði þá eitthvað að gera“ 

„Upphafsmenn að þessu verkefni eru danskir tengdasynir mínir sem eru staddir hérna. Þeir voru hér í sóttkví og einangrun eins og allt heimilið og þá sárvantaði þá eitthvað að gera,“  segir Hólmar.

Þeir hafa nú komið hingað til að gera eitthvað annað en að byggja snjóhús?

„Já já þeir ætluðuð náttúrlega bara að njóta samveru með fjölskyldunni, fara á skíði og svona það sem maður gerir um jól á Íslandi.“  

Notalegt í snjóhúsinu 

Veisla í húsinu um áramótin

En fyrst það var ekki hægt að fara á skíði var tíminn nýttur í snjóhúsagerð, verkefni sem tók tugi klukkutíma. „Þegar húsið var svo loks tilbúið var slegið til veislu. Hérna komum við út um áramótin og kveiktum upp í arni sem við erum með hérna inni og kerti og bara skáluðum fyrir nýja árinu í skjóli.“ 

Létti lundina að fá að hamast

Hann segir snjóhúsagerðina sannarlega hafa stytt stundirnar í einangruninni. „Þetta hefur létt þeim mjög lundina, að geta farið út og hamast svolitla stund og gert eitthvað svona. Ég held að annar þeirra ætli að fara í smiðinn eftir þetta.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Veisla um áramót