
Bjartsýni í Noregi á að lok faraldursins fylgi omíkron
„Ef til vill felst leiðin út úr faraldrinum í þessu omíkron-afbrigði. Æ fleiri lönd hafa nú gott aðgengi að bóluefni og þetta nýja afbrigði, sem virðist bæði minna hættulegt og meira smitandi, flýtir myndun ónæmis,“ sagði Nakstad við NRK.
5.000 smit í gær
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað hratt í Noregi eins og víðast hvar annars staðar eftir að omíkron nam þar land þann 1. desember síðastliðinn. Í gær sagði norska landlæknisembættið að um sjötíu prósent allra þeirra sem greinast með veiruna séu með omíkron-afbrigðið.
Rúmlega 5.000 greindust með veiruna í Noregi síðasta sólarhringinn og er heildarfjöldi smitaðra frá upphafi faraldurs því kominn yfir 400.000. Þar af er meira en fimmtungur á aldrinum 10 til 19 ára.
Vægari einkenni
Rannsóknir í Suður-Afríku, Danmörku og Bretlandi benda til vægari einkenna af völdum omíkron-afbrigðisins, samkvæmt samantekt NRK. Hins vegar er ljóst að fleiri smitum fylgir aukinn fjöldi sjúkrahússinnlagna, sagði Nakstad.
„Þessi hraða útbreiðsla mun leiða til erfiðs veturs hér í Evrópu. Það er deginum ljósara að janúarmánuður verður afar erfiður. En af því svo margir smitast eða fá örvunarskammt gæti ónæmi verið meira í samfélaginu í lok veturs og þannig gætum við mögulega komist út úr þessum faraldri,“ sagði Nakstad enn fremur.