Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þórólfur vildi bólusetningu áður en skólar hæfust

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Ég held að það hefði verið ákjósanlegt að bíða með að setja skólana af stað núna meðan við erum að átta okkur á útbreiðslunni í þessari viku og síðan að hefja bólusetningu. Ég held að það hefði verið ágætt fyrirkomulag. En auðvitað þarf að taka tillit til annarra sjónarmiða í því,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Ég veit ekki hvernig ég á að túlka þessar tölur sem við sáum um áramótin. Það voru tekin töluvert færri sýni. Það verður að koma í ljós næstu daga, í dag eða á morgun, hver staðan raunverulega er,“ segir Þórólfur.

„Við sjáum að það er fólk ennþá að leggjast inn á spítalann. Þrír lögðust inn í gær og engin útskrift. Þannig að það bætir í hægt og bítandi. Það eru um 25 manns inniliggjandi á spítalanum núna, sjö á gjörgæslu og fimm á öndunarvél. Flestir eru með delta-afbrigðið. Við verðum að sjá hvernig þetta verður næstu daga,“ segir Þórólfur. 

Mikið af fólkinu sem greinst hafi undanfarið með covid hafi verið í jólaboðum en smitrakning hafi ekki leitt í ljós neinar stórar hópsýkingar.

Hefurðu áhyggjur af smitum inni á Landspítalanum?

„Já, vissulega. En þetta er það sem aðrir eru að tala um erlendis. Þegar þetta er orðið svona útbreitt og einkennin kannski lítil. Margir eru orðnir bólusettir sem dempar einkennin. Þá má búast við því að smit geti komið upp hér og hvar. Það er náttúrulega verra ef það kemur upp í viðkvæmum hópum og inni á spítalanum. En menn eru með margvíslegar varúðarráðstafanir til að hindra það,“ segir Þórólfur.

Eru þær nægar að þínu mati?

„Ég held að það sé ekki hægt að gera mikið betur. Á endanum ræðst illa við þetta með þeim aðferðum sem við erum með. En eftir sem áður er mikilvægt að reyna að dempa smitin niður og halda kúrfunni niðri eins og hægt er. Ef við gerum það ekki fáum við mjög stóra bylgju yfir okkur sem erfitt verður að ráða við varðandi innlagnir,“ segir Þórólfur.

Ráðherra varð ekki við þinni ósk um að fresta skólabyrjun. Telur þú brýnt að henni verði frestað?

„Ef hefði haldið að það hefði verið ákjósanlegt að doka aðeins við. Nú erum við að undirbúa bólusetningar í samstarfi við skólayfirvöld. Heilsugæslan áformar og telur best að gera það í flestum tilvikum innan skólanna eins og aðrar bólusetningar á þessum aldurshópi. Þannig að þetta er ekkert nýnæmi að það sé verið að bólsetja í skólunum. En það þarf að gera þetta í samstarfi við marga og við þurfum að fá upplýst samþykki hjá forsjáraðilum þessara barna. Þannig að það er bara verið að vinna í því,“ segir Þórólfur.

Tekur það lengri tíma en þú bjóst við?

„Já, þetta er öllu flóknara en ég gerði ráð fyrir. En við reynum að vinna með það,“ segir Þórólfur.

Hefði verið best að þínu mati að bíða með að skólarnum hæfust þangað til búið væri að bólusetja börnin?

„Ég held að það hefði verið ákjósanlegt að bíða með að setja skólana af stað núna meðan við erum að átta okkur á útbreiðslunni í þessari viku og síðan að hefja bólusetningu. Ég held að það hefði verið ágætt fyrirkomulag. En auðvitað þarf að taka tillit til annarra sjónarmiða í því,“ segir Þórólfur.