Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Talið að tíundi hver smitist inni á sjúkrahúsi

Mynd með færslu
 Mynd: Ida Marie Odgaard ©Ritzau Scanp
Tíundi hver sjúklingur í Danmörku smitaður, af omíkron-afbrigði kórónuveirunnar, virðist hafa smitast á sjúkrahúsi. Þetta sýna niðurstöður nýrrar skýrslu rannsóknastofnunar ríkisins í ónæmisfræðum. Sérfræðingur í lyflækningum dregur þetta háa hlutfall þó í efa.

Á tímabilinu 21. nóvember til 25. desember greindist omíkron-smit í 55 af 330 sjúklingum 48 stundum eftir innlögn á sjúkrahús.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Lotte Usinger sérfræðingi við lyflækningadeild sjúkrahússins í Herlev að ekki fari milli mála að smit komi upp á deildinni en að allt sé gert til að komast hjá því.

Næstu vikur séu þó verulegt áhyggjuefni enda sjúklingarnir iðulega með undirliggjandi sjúkdóma og því í áhættuhópi. Hún segir sýni tekin af öllum við innlögn og fólk bíði í sóttkví uns niðurstaða liggur fyrir.

Mjög erfitt sé þó að komast hjá smitum og nefnir Usinger dæmi þess að sjúklingar fái neikvæða niðurstöðu eftir fyrstu skimun en nokkrum dögum síðar komi í ljós að viðkomandi sé smitaður.

Ljóst sé að nákvæmni prófanna sé ekki algjör auk þess sem fólk kann að hafa smitast af COVID-19 skömmu fyrir sjúkrahúsinnlögn. Því þykir Usinger óvarlegt að ætla að tíundi hver smitist inni á sjúkrahúsinu þótt hún viðurkenni fúslega að smit komi þar upp.