Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Grænir iðngarðar rísa á Akranesi

03.01.2022 - 09:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grænir iðngarðar rísa nú á Akranesi þar sem umhverfisvernd og hringrásarhagkerfi á að vera leiðarstef í starfsemi fyrirtækja.

Grænir iðngarðar í Flóa á Akranesi eru þeir fyrstu sem byggjast upp hér á landi. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri segir búið að úthluta tólf lóðum og vinna við frekari gatnagerð sé hafin til að mæta eftirspurn. 

„Við erum að horfa bæði til fyrirtækja á Akranesi sem hafa hug á að flytja sig og sömuleiðis höfum við verið í viðræðum við fyrirtæki sem hafa áhuga á því að flytja starfsemi sína á Akranes,“ segir hann.

Vilja fyrirtæki í matvælaframleiðslu

Sérstaklega er horft til fyrirtækja í matvælaframleiðslu. Svæðið mun byggjast upp á næstu fimm til tíu árum. Iðngarðarnir grænu eru fyrir þau fyrirtæki sem vilja haga starfsemi sinni í þágu umhverfisins - til dæmis með því að virkja hringrásarhagkerfið. 

„Við ætlum að skapa umhverfi hér fyrir fyrirtæki þannig að þau geti uppfyllt allar nútímakröfur um umhverfisvernd. Þannig geti eitt fyrirtæki sem ætlar að vera með matvælaframleiðslu komið afurðum sínum í notkun hjá öðrum sem ætla að nýta hratið af því til sinnar framleiðslu,“ segir Sævar.

Fyrsta húsið í görðunum er þegar risið og hafa Veitur þar nú sína starfsemi. Veitur hafa tekið þátt í að hanna svæðið, til dæmis hvernig megi nýta heita vatnið betur. 

„Í staðinn fyrir að kasta því á glæ volgu þá erum við búnir að leggja tvöfalt kerfi sem gerir þeim fyrirtækjum sem velja að koma hingað kleift að nýta orkuna sem er í heita vatninu til fullnustu,“ segir Gestur Pétursson framkvæmdastjóri Veitna.