Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fleiri smitast nú í annað sinn af kórónuveirunni

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sífellt fleiri smitast tvisvar sinnum af kórónuveirunni. Sóttvarnalæknir segir að svo virðist sem eldra smit verndi ekki vel gegn omíkron-afbrigðinu. „Þannig að það má búast við því að sjá fleiri sem smitast núna af omíkron, sérstaklega ef það er langt liðið frá covid-sýkingu. Þess vegna höfum við verið að bjóða þeim sem hafa fengið covid bólusetningu,“ segir Þórólfur.

Smitin í bylgjunni sem nú stendur eru bæði af delta-afbrigði og omíkron. Þó svo að flest smitin séu af omíkron-afbrigði er ekkert lát á delta-afbrigðinu og eru hundrað til hundrað fimmtíu manns sem smitast af því á degi hverjum. Tvö börn á öðru aldursári liggja inni á barnaspítala Hringsins með delta-afbrigðið.

Unnið er að því hjá embætti sóttvarnalæknis að taka saman fjölda þeirra sem smitast af kórónuveirunni í annað sinn. 

„Til þessa hefur það verið frekar sjaldgæft en það virðist vera að aukast aðeins núna. Það er sennilega vegna þess að fyrri smit vernda ekki eins vel gegn omíkron-afbrigðinu. Þannig að það má búast við því að sjá fleiri sem smitast núna af omíkron, sérstaklega ef það er langt liðið frá covid-sýkingu. Þess vegna höfum við verið að bjóða þeim sem hafa fengið covid bólusetningu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þeir sem smituðust af veirunni fyrir hálfu ári eða lengur ættu því að þiggja bólusetningu.

„Þannig að þeir smituðust 2020, snemma á því ári, það gæti verið að verndin hjá þeim væri orðin lítil,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir að tillögur hans að sóttvörnum ráðist af veirunni en ekki því hversu margir eru óbólusettir. 

„Við verðum bara að horfa á heildartölu alvarlegra veika sem þurfa leggjast inn. Eins og staðan er núna eru þeir flestir óbólusettir,“ segir Þórólfur.

Og Þórólfur er farinn að huga að nýju minnisblaði. 

„Núverandi reglugerð um innanlandsaðgerðir rennur út  8. janúar. Ég þarf að koma með tillögur í vikunni. Ég þarf bara aðeins að sjá hvernig tölurnar eru núna næstu daga áður en ég skila mínum tillögum,“ segir Þórólfur.