Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn fresta opnun skóla vegna veirunnar

03.01.2022 - 23:12
epa09664927 Children are walked into an elementary school past a press conference where New York City Mayor Eric Adams discussed students return to school after winter break and the city's plans for keeping schools open despite a rise in the number of positive COVID-19 cases in the Bronx borough of New York, New York, USA, 03 January 2022.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA - RÚV
Fjórða bylgja heimsfaraldurs kórónuveirunnar geysar sem aldrei fyrr í Bandaríkjunum, en hlutfall sjúklinga á sjúkrastofnunum sem liggja inni vegna veirunnar hækkaði um 40% í síðastliðinni viku. Vegna stöðunnar hefur opnun fleiri þúsund skóla í landinu eftir hátíðarnar verið frestað.

Frá þessu greinir fréttstofa Reuters.

Í New Jersey munu um 38 þúsund nemendur hefja árið í fjarkennslu vegna hraðrar útbreiðslu omíkron-afbrigðisins. Svipuð staða er uppi í Milwaukee þar sem yfir 70 þúsund nemendur munu stunda nám í gegnum fjarfundarbúnað.

Þrátt fyrir rannsóknir sem benda til vægari veikinda af völdum afbrigðisins hefur álag á sjúkrastofnanir í landinu aukist verulega. Í ríkjunum Maryland, Ohio, Delaware og Washington D.C. hefur innlögnum fjölgað hratt og nálgast svipaða stöðu og var í janúar á síðasta ári þegar faraldurinn náði hápunkti þar í landi.

Ólöf Rún Erlendsdóttir