
Loka Twitter-reikningi bandarískrar þingkonu
Upplýsingafulltrúi hjá Twitter staðfesti við CNN að reikningi Greene hafi verið lokað varanlega. Ástæðan er endurtekin brot á stefnu fyrirtækisins gegn dreifingu rangra upplýsinga um faraldurinn en Greene hafði brotið fimm sinnum gegn reglunum og uppskar því bann.
Læsa fyrir endurtekin brot
„Við höfum greint frá því með skýrum hætti að við munum læsa reikningum fólks sem gerist sekt um endurtekin brot,“ sagði Katie Rosborough upplýsingafulltrúi í yfirlýsingu.
Tístið sem um ræðir sneri að bólusetningum gegn Covid-19. Á laugardag sagði Greene að fjöldi andláta hafi verið rakinn til bólusetninga og birti villandi graf máli sínu til stuðnings.
Þingkonan getur enn tíst af opinberum aðgangi sínum, @RepMTG, en þeim persónulega, @mtgreene, hefur verið lokað.
Óvinur þjóðarinnar
Greene sakaði miðilinn um þöggun í yfirlýsingu sinni. Þá sagði hún Twitter „óvin bandarísku þjóðarinnar“.
„Samfélagsmiðlar geta ekki stöðvað sannleikann. Tæknirisarnir geta það ekki heldur og hvað þá kommúnistarnir í Demókrataflokknum. Ég stend með sannleikanum og með þjóðinni. Við munum sigra,“ sagði Greene.
Ár frá banni Trumps
Tæpt ár er liðið frá því Twitter læsti reikningi Donalds Trump, þáverandi forseta, eftir áhlaup stuðningsmanna hans á bandaríska þinghúsið.
Greene var fyrst kjörin á þing árið 2020 og byggði kosningabaráttu sína annars vegar á algjörum stuðningi við stefnu Trumps og hins vegar á hugmyndafræði samsæriskenningahreyfingarinnar sem kennir sig við QAnon. Þær kenningar ganga meðal annars út á að frjálslynd elítuklíka reki barnaníðshring sem Trump muni stöðva.