Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bandaríkjaforseti heitir Úkraínu fullum stuðningi

epa07586884 Ukrainian President-elect Volodymyr Zelenskiy (C) gestures as he waits to attend his inauguration ceremony in Kiev, Ukraine, 20 May 2019. Volodymyr Zelensky with 73,22 percent of the votes beat the current President, Petro Poroshenko, who received 24,45 percent of the votes during the second round of the Presidential elections in Ukraine which were held on 21 April 2019.  EPA-EFE/ZOYA SHU / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur fullvissað úkraínskan kollega sinn, Volodymyr Zelensky, um að stjórn hans brygðist hart við kæmi til þess að Rússar réðust inn í landið.

Forsetarnir tveir töluðu saman í síma í kvöld en vika er í að samningaviðræður háttsettra embættismanna Rússlands og Bandaríkjanna hefjist vegna spennunnar við landamæri Úkraínu.

Biden varaði Vladímir Pútín Rússlandsforseta á gamlársdag við því að Bandaríkin myndu beita hörðum viðskiptaþvingunum og auknum herstyrk innan bandalagsríkja sinna í Evrópu léti hann til skarar skríða gegn Úkraínu.

Það var í annað sinn sem Pútín og Biden töluðu saman í desember. Leiðtogarnir báðir kváðust reiðubúnir að leysa deiluna við samningaborðið. Pútín segir að viðræðurnar verði þó að byggjast á gagnkvæmri virðingu og virðingu fyrir hagsmunum beggja.

Í símtalinu við Zelensky í kvöld áréttaði Biden mikilvægi þess að engar ákvarðanir verði teknar um framtíð Úkraínu án beinnar aðkomu þarlendra ráðamanna.

Zelensky kveðst þakklátur stuðningi Bandaríkjanna og skrifaði á Twitter að loknu samtalinu að það hefði fullvissað hann um hið einstaka samband sem ríkin eigi sín á milli. 

Vesturveldin hafa ásakað Rússa um að ætla sér að gera innrás í Úkraínu sem stjórnvöld í Kreml segja af og frá. Þau fullyrða að fjölmennum rússneskum herafla hafi verið komið fyrir við landamærin til að verjast útþenslu Atlantshafsbandalagsins.

Rússar krefjast þess að bandalagið teygi ekki anga sína nær landinu en nú er og að Bandaríkjamenn komi sér ekki upp herstöðvum í þeim löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum. Úkraínu hefur þó ekki enn verið boðin aðild að bandalaginu þrátt fyrir umsóknir þess efnis.