Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bandaríkin slíta viðskiptasamningi við þrjú Afríkuríki

Joe Biden Bandaríkjaforseti flytur ávarp.
 Mynd: EPA
Þrjú Afríkuríki njóta ekki lengur kosta tolla- og viðskiptasamnings við Bandaríkin vegna mannréttinda- og stjórnarskrárbrota. Bandarísk yfirvöld bjóðast til að aðstoða ríkin við að uppfylla skilyrði samningsins að nýju.

Bandaríkjastjórn tilkynnti í gær að Eþíópía, Malí og Gínea væru ekki lengur hluti viðskiptasamnings Bandaríkjanna við ríki Afríku. Ríkin hefðu brotið þannig gegn grunnvallaratriðum samningsins að ekki yrði við unað.  

Í yfirlýsingu bandarísku viðskiptastofnunarinnar er lýst miklum áhyggjum af upplausnar í stjórnarháttum í Gíneu og Malí og mannréttindabrotum ríkisstjórnar Eþíópíu í norðurhluta landsins.

Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja, ECOWAS, vísaði Gíneu úr bandalaginu  vegna valdaráns hersins í september. 

Í yfirlýsingu viðskiptastofnunarinnar segir einnig að bandarísk stjórnvöld séu reiðubúin að liðsinna ríkjunum svo þau geti að nýju uppfyllt skilyrði samningsins. Samkomulagið tryggir afrískum framleiðendum aðgang að Bandaríkjamarkaði með lækkun aðflutningsgjalda og tolla.

Aðildarríkjunum ber að uppfylla skilyrði varðandi mannréttindi, góða stjórnarhætti, öryggi starfsfólks auk þess sem þeim er óheimilt að setja tollahömlur á bandarískar vörur. 

Samningurinn var gerður í stjórnartíð Bills Clinton árið 2000 til að greiða fyrir og koma á reglu í viðskiptum milli Bandaríkjanna og Afríku. Nú eiga 38 Afríkuríki aðild að samningnum sem gildir til ársins 2025 eftir endurnýjun árið 2015.