Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fyrrverandi dómsmálaráðherra Túnis í haldi stjórnvalda

01.01.2022 - 23:35
epa09659000 Italian Foreign Minister Luigi Di Maio (R) meets with the president of Tunisia Kais Saied during his visit to Tunis, Tunisia, 28 December 2021.  EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Stjórnvöld í Norður-Afríkuríkinu Túnis eru krafin svara um hvar Noureddine Bhiri fyrrverandi dómsmálaráðherra er niðurkominn. Ekkert hefur spurst til hans síðan á föstudaginn.

Bhiri er varaformaður Ennahdha-flokksins sem var sá fjölmennasti á þingi landsins uns forsetinn Kais Saied skipaði því að láta af störfum í júlí.

Óeinkennisklæddir lögreglumenn handtóku Bhiri í höfuðborginni Túnis á föstudag. Innlend samtök sem berjast gegn pyntingum (INPT) greina frá því að yfirvöld þegi þunnu hljóði um hvar Bhiri og Fathi Baldi fyrrverandi embættismann í innanríkisráðuneytinu er að finna.

Lotfi Ezzedine lögmaður samtakanna segir allmarga hafa sætt stofufangelsi frá því í sumar en staða tvemenninganna sé öllu verri því ekkert sé vitað um hvar þeir séu. Því sé í raun haldið leyndu. Bhiri er haldinn langvinnum sjúkdómum og því er óttast mjög um heilsu hans. 

Þeir hafi ekki getað haft samband við fjölskyldur sínar sem sé stjórnarskrárbrot. Talsmenn Ennahda fordæma handtöku Bhiris og líkja henni við mannrán sem marki leið landsins í átt að einræðisstjórn. 

Saied forseti hefur stýrt landinu einn síns liðs frá því hann rak forssætisráðherrann Hichem Mechichi í júlí ásamt ríkisstjórn hans. Hann tilkynnti í september að hann hygðist stjórna með tilskipunum og framlengdi hlé á völdum þingsins.

Í desember síðastliðnum hét forsetinn loks að halda áfram umbótum á stjórnmálakerfi landins.