Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hámarki omíkron-bylgjunnar talið náð í Suður-Afríku

epa09206342 Elderly members of the community wait in line to receive their vaccination during the first day of Covid-19 vaccinations for the over 60 year old population in the country, in Johannesburg, South Africa, 17 May 2021. The first round of vaccinations was for the health care workers in the country. South Africa is lagging behind many countries in the world in its vaccination program.  EPA-EFE/Kim Ludbrook
 Mynd: epa
Yfirvöld í Suður-Afríku fullyrða að hámarkinu sé náð í fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins í landinu en þaðan bárust upplýsingar um tilvist omíkron-afbrigðisins fyrir rúmum mánuði. Ákveðið hefur verið að láta af næturlöngu útgöngubanni sem gilt hefur í landinu.

Í yfirlýsingu suður-afrískra stjórnvalda segir að þrátt fyrir smithæfni afbrigðisins hafi færri þurft að leggjast á sjúkrahús en í fyrri bylgjum. Það eigi við um nær gjörvallt landið. Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Dauðsföllum hafi þó fjölgað örlítið en nýjum smitum fækkaði verulega milli vikna. Þau fóru úr tæpum 128 þúsund um miðjan desember niður í tæp 90 þúsund í vikunni sem lauk á jóladag.

Fareed Abdullah sem starfar fyrir þarlenda rannsóknarstofnun í læknisfræði segir sláandi hve hratt omíkron-bylgjan reis, náði hámarki og lækkaði. Aðeins sex vikur eru síðan útbreiðsla þess hófst í landinu. 

Þrátt fyrir nokkra tilslökun er almenningur enn hvattur til bólusetningar og grímunotkun er skylda á almannafæri. Sérstök nefnd sem fylgist með útbreiðslu faraldursins í landinu metur stöðuna sífellt og gerir breytingar á takmörkunum ef þurfa þykir.

Omíkron-afbrigðið fer sem eldur í sinu um víða veröld og ríki hafa víða gripið til harðra samkomutakmarkana í ljósi mikillar fjölgunar smita. Stjórnvöld um heim allan hvetja til hófsemi í áramótafagnaði.