Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Forseti hvetur landsmenn til einingar í faraldrinum

31.12.2021 - 09:56
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forseti Íslands segir brýnt að þjóðin haldi í þá einingu sem hafi skapast í faraldrinum. Hann hvetur landsmenn til þess að nota grímur, spritta sig og gæta að fjarlægð á mannamótum. „Auðvitað skilur maður þreytu, pirring, gremju en veiran er bara þess eðlis að hún hverfur ekki á braut þótt við verðum gröm,“ segir Guðni Th. Jóhannesson.

Fréttastofa tók hús á Guðna á Bessastöðum í gær. Þá voru um þrettán þúsund manns samanlagt í einangrun og sóttkví. Samkvæmt nýjustu tölum er þessi tala nú komin upp í fjórtán þúsund.

Guðni hvetur landsmenn til að leggja sitt af mörkum til að draga úr smitum.

„Og fari svo að við finnum fyrir einkennum að ganga sem allra fyrst úr skugga um það hvort við séum með veiruna eða ekki og þar til vitneskja liggur fyrir að gæta okkar, vera ekki meðal fólks og þetta er grunnur þessara sóttvarna og svo er það verkefni sóttvarnayfirvalda og stjórnvalda að ákveða með frekari ráðstafanir. Mér finnst líka brýnt að við reynum að halda í þá einingu sem við höfum notið upp til hópa og auðvitað skilur maður þreytu, pirring, gremju en veiran er bara þess eðlis að hún hverfur ekki á braut þótt við verðum gröm,“ segir Guðni.

Forsetinn telur því farsælast að halda í eininguna. 

„En um leið veit ég að sóttvarnayfirvöld eru með sínar tillögur og ráðstafanir og tilmæli í sífelldri endurskoðun. Jákvæðu teiknin við skulum segja sem svo að við getum horft til þess að afbrigði veirunnar virðast veikjast eftir því sem á líður og það gefur okkur nú þá raunhæfu von að sóttvarnir taki mið af því,“ segir Guðni.

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV